Aðildargjöldin framvegis blanda af föstu gjaldi á hvern félagsmann og hlutfalli af heildarlaunum

Ragnar H. Hall lögmaður stýrði fundinum.

Ragnar H. Hall lögmaður stýrði fundinum.

Tillaga um breytt aðildargjöld til BHM var samþykkt á aukaaðalfundi bandalagsins sem haldinn var í dag í gegnum fjarfundabúnað. Með samþykktinni verður breyting á útreikningi gjaldanna. Í stað þess að miða eingöngu við fast hlutfall heildarlauna verður gjaldið tvískipt; annars vegar fast gjald á hvern félagsmann (árgjald) og hins vegar hlutfall af heildarlaunum (skattur). Breytingin hefur í för með sér að gjöld flestra aðildarfélaga munu lækka en hjá einhverjum þeirra munu gjöldin standa í stað fyrst um sinn. Samtals er áætlað að aðildargjöld til BHM muni lækka um nálægt 22 milljónum króna á næsta ári. Til að hægt væri að samþykkja breytt aðildargjöld þurfti að breyta lögum bandalagsins og samþykkti fundurinn tillögu þess efnis.

Um 84% samþykktu tillöguna

Samtals tilnefndu aðildarfélög BHM 178 fulltrúa til setu á fundinum og þar af skráði 171 fulltrúi sig inn á fundinn sem, eins og áður segir, var haldinn í fjarfundabúnaði. Af þeim sem skráðu sig inn á fundinn greiddu 164 atkvæði um tillöguna, 137 (83,5%) samþykktu hana, 20 (12,2%) voru á móti og 7 (4,3%) sátu hjá.

Þess má að lokum geta að á þessu ári hefur BHM haldið aðalfund, framhaldsaðalfund og aukaaðalfund. Tveir þessara funda voru haldnir í gegnum fjarfundabúnað.

Share This