Námsleyfi

Leyfi til að afla sér viðbótarmenntunar á vinnutíma á reglubundnum launum er ýmist heimildarákvæði eða réttur í kjarasamningum.  Námsleyfi getur verið með ólíkum hætti og eftir aðstæðum: starfsmaður fær tímabundið leyfi frá störfum í tiltekinn fjölda daga eða mánaða,  eða hann fær heimild til að stunda nám, sækja námskeið eða ráðstefnur meðfram starfi, án þess að til frádráttar á launum komi. Í öllum tilfellum er fjarvera frá vinnu háð samkomulagi við vinnuveitanda.

Í kjarasamningi KVH við ríkið segir í gr. 10.1.1 að starfsmaður sem unnið hafi hjá sömu stofnun í 4 ár eigi rétt á leyfi til að stunda endurmenntun/framhaldsnám á reglubundnum launum. Starfsmaður ávinnur sér tveggja vikna leyfi á hverju ári. Þó getur uppsafnaður réttur aldrei orðið meiri en 6 mánuðir.  Sjá nánar kafla 10.1.

Í kjarasamningi við sveitarfélögin segir í gr. 10.3.1 að heimilt er að veita launað leyfi til viðurkennds framhaldsnáms til 3ja mánaða hið lengsta á hverjum 5 árum. Í sérstökum tilvikum er heimilt að veita lengra leyfi sjaldnar eða í allt að 6 mánuði á hverjum 10 árum. Sjá nánar kafla 10.3.

Í kjarasamningi við Reykjavíkurborg segir í gr. 11.1.2 að starfsmaður sem unnið hafi í 4 ár og stundi framhaldsnám með samþykki stofnunar, haldi launum og fái greiddan ferða- og dvalarkostnað. Lengd leyfis samkvæmt þessu er allt að 3 mánuðir á 6 ára fresti. Sjá nánar kafla 11.1.

Í kjarasamningi við SA segir í gr. 5.5 að starfsmenn eigi þess kost að sækja fræðslu- og þjálfunarnámskeið og haldi reglubundnum launum, og fái greiddan útlagðan kostnað, nema um annað sé sérstaklega samið. Þá geta starfsmenn einnig óskað eftir námsleyfi, sem þó er háð leyfi fyrirtækis.

Share This