Lög KVH

Lög KVH

Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga

Union of Economists and Business Academics

I. kafli. Heiti félagsins og tilgangur 

1. gr.

Félagið heitir Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga.  Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagssvæði þess er landið allt.

2. gr.

Félagið er stéttarfélag. Tilgangur þess er:

a) Að vinna að bættum kjörum félagsmanna, gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna, bæði á almennum vinnumarkaði og opinberum, og á annan hátt að gæta hagsmuna þeirra í kjaramálum.

b) Að standa vörð um réttindi félagsmanna á vinnumarkaði og upplýsa félagsmenn um réttindi þeirra og skyldur.

c) Að stuðla að samstarfi og samvinnu við erlend stéttar- og fagfélög viðskiptafræðinga og hagfræðinga.

3. gr.

Félagið er aðili að Bandalagi háskólamanna, BHM.

II. kafli. Félagsaðild og réttindi

4.gr.

Félagsaðild er óháð starfsvettvangi, vinnuveitanda eða ráðningarformi.

Fullgildir félagsmenn geta þeir orðið sem greiða félagsgjöld og hafa lokið viðurkenndu prófi í viðskiptafræði eða hagfræði eða hafa lokið annarri námsgráðu á háskólastigi sem inniheldur að lágmarki 120 ECTS einingar af viðskipta- og hagfræðigreinum. Einnig geta þeir sem lokið hafa annarri háskólagráðu og eru í starfi þar sem viðskiptafræði- eða hagfræðimenntun nýtist fengið aðild að félaginu.

Bæði viðskiptafræðingar og hagfræðingar sem starfa sem slíkir, þ.e. nýta þekkingu sína og menntun í viðkomandi starfi, og eru launamenn eða sjálfstætt starfandi, geta átt félagsaðild að KVH.

Aukaaðild geta fengið:

 1. a) Námsmenn í viðskiptafræði eða hagfræði á háskólastigi, sem lokið hafa a.m.k. einu námsári í fræðigreininni eða sem svarar 60 ECTS einingum.
 2. b) Viðskiptafræðingar eða hagfræðingar sem eru í framhalds- eða doktorsnámi.
 3. c) Félagsmenn sem verða  lífeyrisþegar og láta af störfum vegna aldurs.
 4. d) Viðskiptafræðingar og hagfræðingar sem starfa tímabundið erlendis.
 5. e) Viðskiptafræðingar og hagfræðingar sem eru tímabundið atvinnulausir (enda greiði þeir ekki félagsgjöld af atvinnuleysisbótum).
 6. f) Viðskiptafræðingar og hagfræðingar sem eru tímabundið utan vinnumarkaðar vegna veikinda eða fjölskylduaðstæðna.

Aukaaðild felur í sér heimild til þátttöku í starfsemi félagsins, með málfrelsi og tillögurétti og öðrum réttindum að ákvörðun stjórnar hverju sinni, þó ekki með atkvæðisrétti eða kjörgengi til nefndastarfa og stjórnar.

Þeir sem eru aukaaðilar og þiggja ekki laun, greiða heldur ekki félagsgjöld á sama tíma. Námsmenn sem starfa með námi og aðrir aukaaðilar sem þiggja laun, greiða félagsgjöld og njóta réttinda samkvæmt ákvörðun stjórnar á hverjum tíma. Námsmannaaðild í grunnnámi (BA/BS próf) getur ekki varað lengur en fjögur ár samtals.

5. gr.

Beiðni um inngöngu í félagið skal senda framkvæmdastjóra  þess, sem skal taka umsóknina til úrskurðar og tilkynna umsækjanda um niðurstöður. Umsóknina skal send inn annað hvort með rafrænni umsókn á heimasíðu félagsins eða skriflega með öðrum hætti. Með umsókn skulu m.a. fylgja eftirtalin gögn:

 1. a) Staðfesting á háskólaprófi, ásamt samantekt námseininga í viðskipta- og hagfræði.
 2. b) Persónuupplýsingar (nafn, kennitala, heimilisfang, póstnúmer, netfang, sími).
 3. c) Atvinnuupplýsingar (starfsheiti, launagreiðandi, vinnustaður)

Höfnun um aðild má vísa til stjórnar.  Stjórn félagsins getur veitt undanþágu frá inngönguskilyrðum.

6. gr.

Félagsmanni er skylt að greiða félagsgjald samkvæmt ákvörðun aðalfundar hverju sinni.

Skuldi félagsmaður félagsgjöld í 12 mánuði eða lengur getur stjórnin fellt nafn hans af félagaskrá.

7. gr.

Ágreiningi um réttindi og skyldur félagsmanna, sem kann að rísa á milli einstakra félagsmanna annars vegar og félagstjórnar hins vegar, má vísa til félagsfundar og er úrskurður hans endanlegur.

8.gr.

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og tekur gildi um önnur mánaðarmót eftir að hún berst félaginu. Úrsögn skal þó ekki taka gildi:

a) Ef vinnustöðvun vegna kjaradeilu hefur verið boðuð.

b) Meðan á vinnustöðvun stendur. Stjórn félagsins getur framlengt úrsagnarfrestinn um jafnlangan tíma og vinnustöðvun stendur.

Stjórn félagsins getur vikið úr félaginu hverjum þeim sem að hennar áliti brýtur lög félagsins, samninga þess við vinnuveitendur eða vinnur gegn hagsmunum þess.

III. kafli. Aðalfundur

9. gr.

Aðalfundur fer með æðsta vald í skipulagsmálefnum félagsins og hefur einn vald til að breyta lögum þess. Aðalfund félagsins skal halda eigi síðar en í lok mars ár hvert. Aðalfund skal auglýsa á heimasíðu félagsins og  boða öllum félagsmönnum skriflega og/eða með rafrænum pósti, dagskrá með a.m.k. viku fyrirvara og er hann þá lögmætur. Í aðalfundarboði skulu kynntar þær tillögur til lagabreytinga, sem óskað er eftir að hljóti afgreiðslu aðalfundar. Með aðalfundarboði skulu einnig fylgja upplýsingar um framboð til embætta félagsins, sem kjósa á um á fundinum.

Eftirfarandi mál skulu tekin til meðferðar á aðalfundi:

 • Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 • Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári.
 • Reikningar félagsins fyrir liðið starfsár lagðir fram til samþykktar.
 • Skýrslur og tillögur nefnda, ef kjörnar hafa verið.
 • Tillögur félagsstjórnar.
 • Kosning í embætti stjórnar og önnur trúnaðarstörf:
 • Kosning formanns annað hvert ár.
 • Kosning aðalmanna til 2ja ára.
 • Kosning 3ja varamanna til eins árs.
 • Kosning 2ja skoðunarmanna reikninga til 2ja ára.
 • Lagabreytingar.
 • Ákvörðun félagsgjalda.
 • Fjárhagsáætlun og fjárfestingastefna félagsins.
 • Önnur mál.

Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti atkvæða, nema þegar tillögur til breytinga á lögum félagsins eru afgreiddar, en 2/3 hluta fundarmanna á löglegum aðalfundi þurfa að greiða þeim atkvæði til að þær taki gildi. Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn félagsins fyrir 15. febrúar næstan á undan aðalfundardegi. Skal þess getið frá hverjum tillagan kemur.

Framboð/tilnefning til embætta á aðalfundi skulu tilkynnt stjórn fyrir 1. mars næstan á undan aðalfundardegi. Tilkynningu skal fylgja staðfesting þess sem býður sig fram / er tilnefndur á því að hann gefi kost á sér til embættisins. Kosningar til trúnaðarstarfa og atkvæðagreiðsla um lagabreytingar skulu vera leynilegar. Einungis þeir félagsmenn sem mæta á fundinn hafa atkvæðisrétt.

Atkvæðisrétt á aðalfundum og kjörgengi í embætti hafa þeir félagsmenn sem eru fullgildir félagar þann 1. mars næst á undan aðalfundi.

IV. kafli. Stjórn og félagsfundir

10. gr.

Stjórn félagsins er skipuð fimm mönnum og þremur til vara.  Stjórn er kjörin á aðalfundi félagsins.  Kjörtímabil aðalmanna skal vera tvö ár í senn. Kjörtímabil varamanna í stjórn skal vera eitt ár í senn. Leitast skal við að hlutfall karla eða kvenna samanlagt í stjórn og varastjórn félagsins nái 40%.

Kjöri aðalmanna í stjórn félagsins skal haga þannig að aldrei sé skipt um alla stjórnarmenn í einu. Þannig skal kjósa til embættis formanns, gjaldkera og eins meðstjórnanda á sama aðalfundi og svo til embættis ritara og eins meðstjórnanda á þeim næsta. Kjósa skal um hvert embætti fyrir sig.

Ritari gegnir formannsstarfi ef með þarf.

Formaður kveður varamenn til stjórnarfunda ef þurfa þykir.

Stjórn félagsins skipar fulltrúa á aðalfund Bandalags háskólamanna.  Formaður situr í formannaráði BHM í samræmi við gildandi lög þess.  Stjórn tilnefnir fulltrúa félagsins í nefndir og ráð BHM og til annarra trúnaðarstarfa eftir atvikum.

Hámarkstími sem stjórnarmaður getur setið í stjórn getur ekki orðið lengri en 12 ár og formaður stjórnar skal ekki sitja lengur en 15 ár í stjórn félagsins.

11. gr.

Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins með þeim takmörkunum sem lög þessi setja. Hún tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra til að annast daglegan rekstur þess.  Stjórn eða framkvæmdastjóri í umboði stjórnar skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum.  Gerðir stjórnar skulu jafnan færðar til bókar.

12. gr.

Stjórn félagsins er heimilt að stofna og starfrækja deildir innan félagsins, svo sem eftir landssvæðum eða öðrum þeim hætti sem þurfa þykir hverju sinni.

13. gr.

Komi til þess að stjórn segi af sér störfum skal boða til aukaaðalfundar og nýir fulltrúar kosnir til sama tíma og fráfarandi fulltrúar voru áður kosnir.

14. gr.

Félagsfundir eru æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda. Félagsfundi skal halda þegar stjórn telur ástæðu til eða ef 50 félagsmenn krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni. Skulu þeir boðaðir öllum félagsmönnum með tryggilegum hætti. Afl atkvæða ræður úrslitum mála nema annars sé sérstaklega getið í lögum þessum. Einungis þeir félagsmenn sem mæta á fundinn hafa atkvæðisrétt.15. gr.

Stjórn félagsins skal beita sér fyrir því að trúnaðarmenn félagsins séu kjörnir á vinnustöðum félagsmanna, sbr. lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 og lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938.   Stjórn getur jafnframt tilnefnt trúnaðarmann félagsins fyrir tiltekin starfssvæði þar sem félagsaðild er dreifð eftir búsetu.   Stjórn skal boða þá á fund einu sinni á ári og oftar ef þörf krefur.  Stjórn félagsins skal beita sér fyrir því að upplýsa og fræða trúnaðarmenn um hlutverk þeirra, skyldur og réttindi, og styrkja þá eftir atvikum. Stjórn félagsins og trúnaðarmenn skipa samráðsnefnd sem kölluð er saman eftir þörfum, til ráðuneytis um kjaramál, samningamál og hagsmuni félagsmanna.

V. kafli. Samninganefnd

16. gr.

Umboð til að gera kjarasamninga í nafni félagsins er hjá samninganefndum þess. Stjórn skipar í samninganefndir félagsins og formann hverrar nefndar fyrir sig. Samninganefnd skipar fulltrúa í samninganefndir sem eru sameiginlegar með öðrum aðilum.

Verkefni samninganefndar eru:

a) Að undirbúa kröfugerð félagsins vegna kjarasamningaviðræðna.

b) Að sjá um framkvæmd viðræðna og annarra samskipta við viðsemjendur.

c) Að ganga frá kjarasamningum og undirrita þá með fyrirvara um samþykki þeirra félagsmanna sem undir samninginn heyra.

d) Að kynna félagsmönnum kjarasamning og sjá um að þeir sem samningur nær til fái kynningu á ákvæðum hans og áhrifum.

e) Að sjá um að samningar séu bornir undir atkvæði viðkomandi félagsmanna.

f) Framkvæmdastjóri KVH og/eða starfsmenn félagsins sitja í samstarfsnefndum með viðsemjendum til að fjalla um ágreining ef upp kemur um túlkun á kjarasamningi, réttindum eða framkvæmd aðalkjarasamnings, auk þess að fylgja eftir bókunum kjarasamninga.

Allir kjarasamningar sem gerðir eru í nafni KVH skulu undirritaðir af samninganefnd félagsins. 

V. Kafli. Fjármál og rekstur

17. gr.

Stjórn félagsins ber ábyrgð á fjármálum og öllum rekstri félagsins.  Allar ákvarðanir um óregluleg útgjöld og fjárhagslegar skuldbindingar fyrir félagið skulu teknar til formlegrar afgreiðslu á stjórnarfundum, aðrar en þær sem framkvæmdastjóri tekur innan þeirra marka sem stjórn hefur sett.

Fjárhagsár ársreikninga skal miðast við almanaksár. Ársreikninga skal leggja fram til skoðunar á síðasta stjórnarfundi fyrir aðalfund og skal gjaldkeri gera grein fyrir þeim.  Þeir skulu lagðir fram á aðalfundi, áritaðir af skoðunarmönnum reikninga og stjórn.

Skoðunarmenn ársreikninga eru tveir. Þeir skulu kjörnir á aðalfundi til tveggja ára í senn. Við kjör skoðunarmanna ársreikninga eru stjórnarmenn ekki gjaldgengir.

Stjórnin skal ráða löggiltan endurskoðanda til eftirlits með reikningshaldi félagsins.

18. gr.

Félagið rekur Vísindasjóð KVH í samræmi við ákvæði kjarasamninga félagsins.  Hlutverk hans er m.a. að stuðla að aukinni endurmenntun félagsmanna.  Stjórn KVH er jafnframt stjórn Vísindasjóðs KVH. Sömu skoðunarmenn ársreikninga KVH og löggiltur endurskoðandi annast eftirlit með reikningshaldi og ársreikningum Vísindasjóðs KVH.

19. gr.

Félaginu verður því aðeins slitið að aðalfundur hafi með einföldum meirihluta atkvæða vísað því til stjórnar að hún undirbúi tillögu um félagsslit til að leggja fyrir næsta aðalfund félagsins. Tillaga um félagsslit nær því aðeins fram að ganga að ¾ hlutar fundarmanna á löglegum aðalfundi greiði henni atkvæði sitt og að hún hljóti meirihlutasamþykki í almennri atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna.

Félagsslitafundur tekur ákvörðun um ráðstöfun eigna félagsins.

 

(Lög KVH samþykkt á aðalfundi KVH 17. desember 1999, með áorðnum breytingum, 30.mars 2006, 29.mars 2007 og 27. mars 2014, 15. mars 2018 og 31. mars 2023).

Share This