Breytingar á störfum

Það getur verið álitamál hvenær starf hefur breyst svo mikið að slíkt kalli á endurskilgreiningu og endurmat launa. Öll störf þróast og breytast yfir tímabil með nýjum verkefnum, nýrri tækni, nýjum kröfum, skipulagsbreytingum eða af öðrum ástæðum.

Sé um greinilega breytingu á starfi að ræða er rétt og eðlilegt að ganga frá slíkum breytingum með formlegum hætti, svo sem að breyta starfslýsingu og endurmeta laun eftir atvikum.

Opinberum starfsmanni ber að hlíta breytingum á starfi og/eða verksviði ef til þeirra kemur.  Verulegar breytingar ber að tilkynna honum með sama fyrirvara og ef um uppsögn væri að ræða.  Ef breytingar hafa í för með sér skert launakjör eða réttindi skal hann halda óbreyttum launakjörum og réttindum jafn langan tíma og réttur hans til uppsagnarfrests er. Jafnframt ber þá að virða andmælarétt starfsmannsins.  Ef breytingar fela ekki í sér skert laun er ekki skylt að veita starfsmanni andmælarétt og sama gildir ef um skerta yfirvinnu er að ræða.

Starfsmaður getur kosið að segja upp starfi sínu ef hann unir ekki breytingunum og ber honum þá að skýra yfirmanni frá þeirri ákvörðun innan eins mánaðar.

Um ofangreint fjalla lög nr.70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins,  grein 11.1.4 í kjarasamningi við Samband sveitarfélaga og gr. 9.6 í kjarasamningi við Reykjavíkurborg.

Ekki eru sambærileg ákvæði í kjarasamningi við SA. Hins vegar má telja það góða stjórnunarhætti á almennum vinnumarkaði að viðhafa samráð við starfsmann um breytingar, endurskoða starfslýsingu og endurmeta laun eftir atvikum.

Share This