Hlunnindi

Misjafnt er hjá fyrirtækjum og stofnunum hvaða hlunnindi, fríðindi eða gæði standa starfsmönnum til boða, umfram laun og kjarasamningsbundin réttindi.  Í starfsmannastefnu fyrirtækis  eða reglum sem útfærðar eru á grundvelli hennar eru gjarna ákvæði um ýmis almenn atriði sem standa starfsmönnum til boða, svo sem styrkir til heilsuræktar, samgöngustyrkir, niðurgreiðsla  kostnaðar s.s. vegna árshátíða, starfsmannaferða, fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu, ellegar  jólagjafir, afmælisgjafir vegna stórafmæla eða starfsafmæla og margt fleira.

Í sumum tilfellum fylgja tilteknum störfum bifreiðahlunnindi, aksturssamningar, fartölvur og/eða farsímar og er þá gjarna nánar kveðið á um það í ráðningarsamningi starfsmanns.  Í kjarakönnun BHM/KVH kom í ljós að um 60% viðskiptafræðinga hafa til umráða fartölvu frá vinnuveitanda og rúmlega 50% snjallsíma.  Flestir þeirra töldu að snjalltæki frá vinnuveitanda hefðu lítil truflandi áhrif á hvíldartíma eða samskipti við fjölskyldu.

Sjóðir stéttarfélaga veita einnig ýmsa styrki, ekki aðeins námsstyrki heldur margs konar heilsutengda styrki (sjá m.a. úthlutunarreglur Styrktarsjóðs BHM, Sjúkrasjóðs BHM og Starfsmenntunarsjóðs BHM).

Ástæða er til að hafa í huga að hugtökin hlunnindi og styrkur hafa ekki endilega sömu merkingu í skattalegu tilliti og í daglegu máli.   Sú meginregla gildir í skattalögum að öll starfstengd hlunnindi og styrkir eru skattskyld sem laun, nema þau séu sérstaklega undanþegin. Allar nánari upplýsingar um skattalega meðferð hlunninda er að finna á vef ríkisskattstjóra.

Share This