Starfslýsingar

Starfslýsingar eru mikilvægar fyrir starfsmenn og stjórnendur af mörgum ástæðum. Þær eru mikilvægar við ráðningar og endurskipulag starfa, nauðsynlegar í starfsmanna- eða  starfsþróunarsamtölum og skipta verulegu máli þegar störf eru metin innbyrðis til launa á hlutlægan hátt.

Í starfslýsingu kemur fram hver eru helstu verkefni starfs, tilgangur og ábyrgðarsvið, auk þess sem skilgreindar eru grunnkröfur til starfsins, svo sem menntunarkröfur, hæfni sem krafist er, starfsreynsla og fleira.

Starfslýsingin lýtur að hinum almennu og sértæku kröfum sem starf gerir til starfsmanns og er óháð því hver gegnir starfinu.

Misjafnt er hvort eða hvernig starfslýsinga er getið í kjarasamningum.  Hjá ríkinu segir í gr. 11.3.1 að starfslýsingar séu ein af forsendum röðunar starfa í launaflokka og skuli þær endurskoðaðar í takt við þróun starfa.  Hjá Sambandi sveitarfélaga í gr. 11.1.3.6 segir að starfslýsingar skuli vera til fyrir öll störf og skuli starfslýsing vera aðgengileg þeim starfsmanni er sinni starfinu.  Hjá Reykjavíkurborg eru ekki sérstök ákvæði um starfslýsingar í kjarasamningi við KVH, en hins vegar hefur borgin mjög ítarlegar reglur og leiðbeiningar fyrir stjórnendur um gerð starfslýsinga og er því gert ráð fyrir þeim í öllum tilvikum.

Ekki eru ákvæði um starfslýsingar í kjarasamningi við SA, en segja má að flest stærri fyrirtæki og þau sem eru metnaðarfull í mannauðsmálum geri starfslýsingar.

Share This