Vellíðan á vinnustað

Hagsmunir starfsmanna og stjórnenda fara saman þegar kemur að vellíðan á vinnustað, því að hún er mikilvæg forsenda þess að ná árangri í störfum.  Gott starfsumhverfi, góðir stjórnunarhættir og möguleikar starfsmanna til að þróast í starfi eru helstu áhrifavaldar að þessu leyti.

Traust í samskiptum, jákvæð viðhorf, virðing, umburðalyndi og jafnræði byggja upp góðan starfsanda, sem er bæði á ábyrgð stjórnenda og starfsmanna að viðhalda.   Góðar vinnuaðstæður og gott upplýsingastreymi skipta jafnframt miklu máli fyrir vellíðan og heilbrigði starfsmanna, sem og sveigjanlegur vinnutími og hóflegt vinnuálag til að stuðla að samræmingu vinnu og einkalífs.

Í kjarasamningum er ekki beinlínis fjallað um vellíðan á vinnustað, þótt þar séu ákvæði um aðbúnað og hollustuhætti og annað sem tengist vinnuverndarmálum.  Það er hins vegar í starfsmannastefnu fyrirtækja / stofnana sem fjallað er um vellíðan á vinnustað og koma fulltrúar starfsmanna iðulega að mótun slíkrar stefnu.

Ástæða er til að minna á þann þátt vinnuverndar sem lýtur að því að koma í veg fyrir áreitni og einelti á vinnustöðum, þar á meðal kynferðisleg áreitni.  Hjá Vinnueftirliti ríkisins má m.a. sjá umfjöllun um þá þætti og tilvísanir í viðkomandi lög og reglugerðir, og einnig bækling um einelti og kynferðislega áreitni á vinnustöðum.

Sjá reglugerð aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Sjá leiðbeiningarrit um kynbundna og kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Að útgáfunni standa BHM ásamt ASÍ, BSRB, KÍ, Jafnréttisráði og Jafnréttisstofu. Leiðbeiningarrit á ensku og pólsku.

Share This