Vinnutími

Vinnuvika starfsmanns í fullu starfi er 40 stundir (virkur vinnutími 36 klst. hjá hinu opinbera  og 35 klst. og 30 mínútur á almennum vinnumarkaði), nema um skemmri vinnutíma sé sérstaklega samið. Virkur vinnutími telst sá tími sem starfsmaður er við störf.

Dagvinna skal unnin á tímabilinu kl. 08 – 17 (hið opinbera) eða 07 – 18 (almennur vinnumarkaður), frá mánudegi til föstudags. Til vinnutímans teljast tveir kaffitímar á venjulegum vinnudegi, 15 mínútur og 20 mínútur. Ef samið er um að fella þá niður, styttist vinnudagurinn um 35 mínútur. Heimilt er að semja um sveigjanlegan vinnutíma á dagvinnutímabilinu, ef hægt er að koma því við og það hentar báðum aðilum.

Yfirvinna

  • Yfirvinna telst sú vinna sem fram fer utan tilskilins daglegs vinnutíma eða vaktar starfsmanns svo og sú vinna sem innt er að hendi umfram vikulega vinnutímaskyldu.
  • Yfirvinnutímakaup 1 hjá hinu opinbera er fundið með því að margfalda mánaðarlaun með 0,9385%.
  • Yfirvinnutímakaup 2 hjá hinu opinbera er fundið með því að margfalda mánaðarlaun með 1,0385%.
  • Eftirvinnukaup á almennum vinnumarkaði er fundið með því að margfalda mánaðarlaun með 0,875%
  • Yfirvinnutímakaup á almennum vinnumarkaði er fundið með því að margfalda mánaðarlaun með 1,0385%.
  • Stórhátíðarkaup er fundið með því að margfalda mánaðarlaun með 1,375%.
  • Skylt er opinberum starfsmönnum að vinna yfirvinnu sem yfirmaður telur nauðsynlega. Þó er engum starfsmanni, nema þeim er gegnir öryggisþjónustu, skylt að vinna meiri yfirvinnu í viku hverri en nemur fimmtungi af umsömdum vikulegum vinnutíma.
  • Starfsmönnum á almennum vinnumarkaði er ekki skylt að vinna yfirvinnu og eiga ekki að gjalda þess ef þeir hafna yfirvinnu.

Frí í stað yfirvinnu:

Ríki

Heimilt er starfsmanni, með samkomulagi við vinnuveitanda, að safna frídögum vegna yfirvinnu, á þann hátt að yfirvinnutímar komi til uppsöfnunar og frítöku á dagvinnutímabili en yfirvinnuálagið er greitt við næstu reglulegu útborgun. Samkomulag skal vera um töku frísins og það skipulagt þannig að sem minnst röskun verði á starfsemi stofnunar. Frí samkvæmt framansögðu, vegna undanfarandi almanaksárs, sem ekki hefur verið nýtt fyrir 15. apríl ár hvert, eða við starfslok, skal greitt út á dagvinnutaxta viðkomandi starfsmanns við næstu reglulegu útborgun.

Reykjavíkurborg

Fari yfirmaður fram á að starfsmaður vinni yfirvinnu getur starfsmaður óskað eftir að í stað yfirvinnugreiðslu fái hann leyfi þannig að gegn hverjum yfirvinnutíma komi 1,8 klst. í dagvinnu. Heimild þessi getur að hámarki numið 5 frídögum á ári. Fari yfirvinna starfsmanns í tilteknum mánuði fram úr einum fimmta af vinnuskyldu hans, skal hann hafa val milli leyfis og launa sem því nemur, þannig að 1,8 klst. komi í stað unninnar yfirvinnustundar. Slík leyfi má aðeins taka í samráði við forstöðumann stofnunar.

Sveitarfélög

Heimilt er starfsmanni, með samkomulagi við vinnuveitanda, að safna allt að 10 frídögum á ári vegna yfirvinnu, á þann hátt að yfirvinnutímar komi til uppsöfnunar en yfirvinnuálagið er greitt við næstu reglulegu útborgun. Frí vegna yfirvinnu frá fyrra ári, sem ekki hefur verið nýtt fyrir 15. apríl ár hvert, skal greitt út sem dagvinnustundir við næstu reglulegu útborgun.

Yfirvinnuálagið er 44,44% af yfirvinnutímakaupi starfsmanns. Yfirvinnuálag skal ekki tekið út í fríi, heldur skal það greitt við næstu reglulegu útborgun, þ.e. þegar yfirvinnan ella hefði komið til greiðslu. 

SA

Heimilt er með samkomulagi milli vinnuveitanda og starfsmanns að greiða fyrir yfirvinnu og eftirvinnu með fríum á dagvinnutímabili. Ef ekki er um annað samið skal leggja verðgildi unninna vinnutíma (með eftirvinnu- eða yfirvinnuálagi eftir því sem við á) til grundvallar.

Hvíldartími

Vinnutíma skal haga þannig að á 24 stunda tímabili, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmaður a.m.k. 11 klst. samfellda hvíld. Verði því við komið skal dagleg hvíld ná til tímabilsins milli kl. 23:00 til 06:00. Óheimilt er að skipuleggja vinnu þannig að vinnutími frai umfram 13 klst.

Sjá nánar kafla 2 í viðkomandi kjarasamning vegna frávika frá daglegri lágmarkshvíld.

Sjá samning um ákveðna þætti er varðar skipulag vinnutíma milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Launanefndar sveitarfélaga og Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, BSRB og Kennarasambands Íslands.

Vikulegur frídagur

Á hverju 7 daga tímabili skal starfsmaður hafa a.m.k. 1 vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma og skal við það miðað að vikan hefjist á mánudegi.

Heimilt er með samkomulagi við starfsmann að fresta vikulegum frídegi þannig að í stað vikulegs frídags komi tveir samfelldir frídagar á tveim vikum. Töku frídaga má haga þannig að þeir séu teknir aðra hverja helgi (laugardag og sunnudag). Í sérstökum tilvikum má fresta vikulegum frídegi lengur þannig að starfsmaður fái samsvarandi hvíld innan 14 daga. Falli frídagar á virka daga vegna ófyrirséðra orsaka skerðir það ekki rétt starfsmanns til fastra launa og vaktaálags.

Ítarefni
Share This