Veikindaréttur

Starfsmenn eiga almennt rétt á launum í veikindum eftir því sem kveðið er á um í  lögum eða samið er um í kjarasamningi. Eftir að rétti til launa í veikindum sleppir hjá vinnuveitenda getur félagsmaður átt rétt á greiðslum frá Sjúkrasjóði BHM eða Styrktarsjóði BHM og/eða frá almannatryggingakerfi.

Veikindaréttur er mismunandi eftir því hvort starfsmaður vinnur á opinberum eða almennum vinnumarkaði

Veikindaréttur hjá ríki og sveitarfélögum

Starfsmaður sem ráðinn er til starfa á mánaðarlaunum í a.m.k. tvo mánuði skal halda launum svo lengi sem veikindadagar hans, taldir í almanaksdögum, verða ekki fleiri á hverjum 12 mánuðum en hér segir:

Starfstími

Fjöldi daga

0-3 mánuðir í starfi

14

Næstu 3 mánuðir

35

Eftir 6 mánuði

119

Eftir 1 ár

133

Eftir 7 ár

175

Eftir 12 ár

273

Eftir 18 ár

360

Við útreikning á veikindarétti er horft til fjölda veikindadaga síðustu 12 mánuði og sá fjöldi dreginn frá rétti starfsmanns.  Til starfstíma (starfsaldurs) telst samanlagður starfstími hjá stofnunum ríkis, sveitarfélaga og hjá sjálfseignarstofnunum sem kostaðar eru að meirihluta til af almannafé óháð starfshlutfalli.  Á fyrstu þremur mánuðum samfelldrar ráðningar skal þó fyrri þjónustualdur ekki  metinn nema viðkomandi starfsmaður hafi samfelldan þjónustualdur hjá framangreindum launagreiðendum í tólf mánuði eða meira. Sé starfsmaður á föstum launum (með samning um fasta yfirvinnu) fær hann sín föstu laun greidd hvort sem veikindin vara í eina viku eða lengur.

Veikindaréttur á almennum vinnumarkaði

Á almennum vinnumarkaði er lágmarksveikindaréttur samkvæmt lögum tveir dagar fyrir hvern unninn  mánuð. Veikindaréttur samkvæmt kjarasamningi aðildarfélaga BHM við SA er sem hér segir:

Starfstími

Fjöldi daga

Á fyrsta ári

2 dagar fyrir hvern unninn mánuð

Eftir 1 ár í starfi hjá sama atvinnurekanda

2 mánuðir

Eftir 5 ár í starfi hjá sama atvinnurekanda

4 mánuðir

Eftir 10 ár í starfi hjá sama atvinnurekanda

6 mánuðir

Veikindi teljast í virkum stundum/dögum eða í væntanlegum stundum/dögum skv. vinnuskipulagi. Laun greiðast þó ekki lengur en ráðningu er ætlað að standa.

 

Fjarvera vegna veikinda barna yngri en 13 ára

Foreldri hefur heimild til að vera frá vinnu í samtals 12 vinnudaga (96 vinnustundir) á hverju almanaksári vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri. Á þetta við bæði um almennan og opinberan vinnumarkað.

Sjá nánar í viðkomandi kjarasamningum þar sem ítarlega fjallað er um veikindarétt.

Share This