Ráðningarsamningar

Ráðningarsamningur er samningur milli starfsmanns og vinnuveitanda þar sem kveðið er á um vinnuframlag starfsmanns í þágu vinnuveitanda gegn tilteknu gjaldi í formi launa og annarra starfskjara. Ráðningarsamningar geta verið annaðhvort tímabundnir eða ótímabundnir. Sé það ekki sérstaklega tekið fram að ráðningarsamningur er tímabundinn, þá er hann ótímabundinn. Óheimilt er að framlengja eða endurnýja tímabundinn ráðningarsamning þannig að hann vari samfellt lengur en í tvö ár. Lög nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna hafa m.a. það markmið að bæta tímabundnar ráðningar með því að tryggja meginregluna um að starfsmönnum með tímabundna ráðningu sé ekki mismunað miðað við þá sem ráðnir eru ótímabundið. Skylt er að ganga frá skriflegum ráðningarsamningi milli starfsmanns og vinnuveitanda við upphaf ráðningar. Með því að taka skýrt fram í ráðningarsamningi hvaða reglur skuli gilda um ráðningarsamband, bæði varðandi starfið og þau kjör sem því fylgja er hægt að koma í veg fyrir ágreining síðar. Í ráðningarsamningi skal m.a. tilgreina eftirfarandi atriði:

  • Deili á aðilum, nöfn og kennitölur vinnuveitanda og starfsmanns
  • Vinnustað og heimilisfang vinnuveitanda (starfsstöð)
  • Starfsheiti, titil eða stöðu
  • Vinnutímaskipulag og starfshlutfall
  • Upphafstíma ráðningar og lengd ráðningar, sé hún tímabundin, ásamt uppsagnarfresti
  • Ráðningarkjör, s.s. föst mánaðarlaun eða tilvísun til launataxta, aðrar greiðslur og hlunnindi eftir atvikum
  • Orlofsrétt við upphaf ráðningar
  • Rétt til launa í veikindum
  • Lífeyrissjóð og stéttarfélag
  • Greiðslur í sjóði

Ráðningarsamningur verður að vera í samræmi við kjarasamning og eru ákvæði um lakari rétt ógild, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um Starfskjör launafólks. Ákvæði ráðningarsamninga sem kveða á um launaleynd eru óheimil, sbr. 3. mgr. 19. gr. Jafnréttislaga nr. 10/2008, en þar segir „Starfsmönnum skal ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo“. Breytingar á ráðningarkjörum umfram það sem leiðir af lögum eða kjarasamningum skal staðfesta með skriflegum ráðningarsamningi.

  • Ráðningarsamningar eru staðlaðir hjá opinberum aðilum og þá má finna á vefsíðum þeirra (sjá stjórnarráðið, Reykjavíkurborg og Samband ísl.sveitarfélaga)
  • Hér má finna Ráðningarsamningsform fyrir þá sem starfa á almenna vinnumarkaðinum
Share This