Í samræmi við ákvæði nýrrar greinar í kjarasamningi KVH og ríkisins, hafa aðilar gengið sameiginlega frá „stöðluðu formi stofnanasamnings“, sem hægt er að vísa í og nota  í þeim tilvikum sem einn eða mjög fáir félagsmenn KVH starfa á stofnun. Tilgangurinn er einkum sá að auðvelda stofnunum og félagsmönnum KVH að semja um ráðningarkjör með vísan í fyrirmynd eða staðlað form stofnanasamnings.

Þetta form eða fyrirmynd breytir þó ekki því að stéttarfélagið KVH eða ríkisstofnun geta engu að síður farið fram á að gerður verði formlegur stofnanasamningur við viðkomandi stofnun, þar sem mjög fáir starfsmenn starfa, ef ekki hefur náðst viðunandi niðurstaða um launakjör.

Aðilar hafa einnig gengið sameiginlega frá leiðbeiningum er skýra nánar hvernig nota skuli formið.  Að auki fylgir með svonefnt launablað, sem nota má til staðfestingar launaröðunar og samsetningar heildarlauna, og þegar launabreytingar verða, svo auðveldara reynist fyrir báða aðila að staðfesta launaþróun viðkomandi starfsmanns.

Fyrrgreind gögn um staðlað form, leiðbeiningar og launablað má finna á vefsíðu KVH, undir Kaup og kjör; Stofnanasamningar.

KVH er jafnt og þétt að vinna við endurskoðun stofnanasamninga og ávallt eru viðræður í gangi við nokkra aðila, enda margir samningar komnir til ára sinna.  Að loknum sumarleyfum má búast við að KVH hefji viðræður við fleiri stofnanir, líklega fyrst þær fjölmennustu, um endurnýjun stofnanasamninga, en stefnt er að því að ljúka endurnýjun samninga svo fljótt sem auðið er.

Share This