BHM, ASÍ, BSRB, Fíh, KÍ og LÍ hafa sent sameiginlegt erindi á kjara- og mannauðssýslu ríkisins vegna réttarstöðu starfsfólks sem gert er að sæta sóttkví í orlofi sínu.

Borið hefur á því að ríkisstofnanir neiti að breyta orlofsskráningu hjá starfsfólki hafi það þurft að sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda á meðan það er í sumarfríi. Fjölmörg dæmi eru um að ríkisstofnanir hafi svarað starfsfólki sínu þannig að umræddur tími í sóttkví teljist til orlofs, óháð því hvort viðkomandi hafi tilkynnt um sóttkví eður ei, líkt og ber að gera vegna veikinda í orlofi.

Mál sem þessi eru í síauknum mæli að valda starfsfólki og stéttarfélögum erfiðleikum vegna óskýrra skilaboða og síbreytilegra reglna ríkisstofnana.

BHM, ASÍ, BSRB, Félag Íslenskra hjúkrunarfræðinga, Kennarasamband Íslands og Læknafélag Íslands telja þessa túlkun hvorki samræmast lögum né ákvæðum kjarasamninga. Er það mat okkar að við þessar aðstæður eigi starfsfólk rétt á að fresta orlofstöku sinni. Einstaklingur í sóttkví er meðhöndlaður líkt og hann sé sýktur þar til annað kemur í ljós. Margar íþyngjandi takmarkanir eru á einstaklingum sem sæta sóttkví sem jafna má við veikindi. Sem dæmi er bannað að umgangast annað fólk, nota almenningssamgöngur, vera í fjölmenni og fleira. Þá getur brot á sóttkví varðað refsingu. Það gefur því augaleið að starfsmaður getur tæplega notið þess að vera í orlofi.

Óskað er eftir formlegri afstöðu og viðbrögðum KMR til málsins. Félögin vilja reyna að ná farsælli niðurstöðu sem fyrst, annars getur reynst nauðugur kostur einn að fá úr álitaefninu skorið fyrir dómstólum.

Hér má lesa erindi BHM, ASÍ, BSRB, Fíh, KÍ og LÍ í heild sinni.

Share This