Kjarasamningar við ríki, Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög hafa verið lausir frá 31.mars 2019 en sá dráttur sem orðið hefur á nýjum kjarasamningum er með öllu óásættanlegur.

 

Kjarasamningsviðræður gagnvart Reykjavíkurborg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga hafa raunverulega verið í biðstöðu vegna kjaraviðræðna við ríkið. Sú biðstaða er ekki að ósk KVH heldur viðsemjenda okkar.

KVH er í samfloti 11 aðildarfélaga innan BHM í kjaraviðræðum við ríkið en fjögurra manna viðræðunefnd leiðir viðræðurnrar. Fulltrúi KVH er í viðræðunefndinni og samninganefnd KVH er upplýst eftir hvern einasta fund um stöðu allra mála sem til umræðu eru.

Skemmst er frá því að segja að þrátt fyrir að hafa fundað um 50 sinnum með samninganefnd ríkisins (SNR) hefur lítið þokað áfram. Margir þættir hafa áhrif á stöðu mála eins og lífskjarasamningurinn svokallaði sem inniber lágar krónutöluhækkanir. Það eitt og sér hefur haft mestu áhrifin á hversu lengi ferlið hefur staðið yfir sem telst sérstakt í ljósi þess að við vorum aldrei kölluð að borðinu þegar samkomulag á almennum vinnumarkaði var gert. Annað sem skiptir líka verulegu máli er að í upphafi kjaraviðræðna kom í ljós að fulltrúar vinnuveitenda á opinberum markaði komu mjög illa undirbúnir til viðræðna. Og í tilviki SNR hafa fulltrúar þeirra ítrekað fund eftir fund komið óundirbúin án þess að hafa unnið sína heimavinnu sem eru vinnubrögð án fordæma. T.a.m. þurfti nokkurra mánaða umræðu um vinnutímastyttinguna til þess að koma því verkefni af stað því upphaflegar hugmyndir viðsemjenda okkar var að geyma allar útfærslur þar til á seinni hluta kjarasamningstímabilsins. Jafnframt hefur viðræðunefnd BHM- 11 átt fullt í fangi með að verjast einbeittum vilja viðsemjenda við að skerða áður áunnin réttinda okkar félagsmanna.

Það sem hefur þó áunnist er samkomulag um útfærslu vinnutíma í dagvinnu sem er jákvætt. Launaliðurinn er hins vegar ókláraður enda hafa félagsmenn okkar hafnað því að gengið verði að kjarasamning þar sem ekki hægt er að tryggja kaupmáttaraukningu á samningstímabilinu.

 

Staðan er mjög flókin en viðræðunefnd BHM-11 hefur margítrekað óskað eftir að gerður verði skammtímasamningur á meðan unnið er að útfærslu mála auk þess sem við teljum stuttan samning skynsamlega í ljósi núverandi óvissu í efnahagsumhverfinu.

Share This