Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi þ. 5.júní s.l. Reykjavíkurborg til að greiða fjármálastjóra Ráðhúss Reykjavíkur miskabætur, samhliða því að felld var úr gildi skrifleg áminning sem Reykjavíkurborg hafði veitt fjármálastjóranum í starfi. Málið (E-3132/2017) er athyglisvert fyrir margra hluta sakir, ekki hvað síst vegna ámælisverðra stjórnunarhátta og framgöngu skrifstofustjóra borgarstjóra og borgarritara.

Kveður dómari fast að orði í dómsniðurstöðu, en þar segir m.a.: „Um þá skilyrðislausu hlýðni sem skrifstofustjórinn virðist ætla af stefnanda verður sagt það eitt að þrátt fyrir stjórnunarrétt annars og hlýðniskyldu hins eru undirmenn ekki dýr í hringleikahúsi yfirmanna sinna. Að mati dómsins er þessi  framkoma skrifstofustjórans í það minnsta óvirðing, ef ekki lítilsvirðing við samstarfsmann, sem er auk þess kynslóð eldri en hún og ætti, þó ekki nema vegna starfsreynslu sinnar, tilkall til örlítillar virðingar.“

Upphaf málsins má rekja til ágúst 2016, en áminning sem skrifstofustjóri Ráðhúss veitti undirmanni sínum, fjármálastjóra Ráðhúss var í fimm liðum: Fjármálastjórinn var áminntur í júní 2017 fyrir brot á hlýðniskyldu, óvandvirkni í starfi, ófullnægjandi árangur í starfi, ósamræmanlega framkomu og óhlýðni við löglegt boð yfirmanns.  Í stuttu máli hafnaði dómari öllum þessum ávirðingum og dæmdi þær og áminninguna ólögmætar.  Þá taldi dómarinn að áminningin hefði verið til þess fallin að skaða æru stefnanda og voru honum dæmdar miskabætur, auk málskostnaðar.

Fjármálastjórinn hefur meira en 35 ára reynslu af störfum tengdum fjármálum og hefur þar af verið fjármálastjóri Ráðhúss í rúm 10 ár. Skrifstofustjóri borgarstjóra og borgarritara hefur gegnt því starfi í rúm fimm ár.  Skrifstofan heyrir undir borgarritara, sem heyrir beint undir borgarstjóra.   Báðum þeim síðarnefndu var kunnugt um málið og hefðu getað leitað annarrar niðurstöðu en þeirrar að láta reyna á málið fyrir dómstólum, eins og lögmaður stefnanda hafði hvatt til.  Ljóst var frá upphafi að málatilbúnaður skrifstofustjórans var rangur og óréttmætur, og gat ekki leitt til áminningar.  Ein afleiðing málsins er sú að borgarsjóður hefur orðið að greiða umtalsverða fjármuni vegna ámælisverðra stjórnunarhátta í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Dóminn má nálgast hér.

Share This