Umtalsverð kjaraskerðing og óvissa um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna, ef fyrirliggjandi frumvarp um breytingar á lögum um LSR verður samþykkt.

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga leitaði til Dr. Oddgeirs Á. Ottesen, hjá Integra ráðgjöf, um mat á forsendum og útreikningum sem lágu til grundvallar Samkomulagi ríkis og heildarsamtaka opinberra starfsmanna frá 19. september s.l. um breytingar á  skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna, og frumvarpi til laga um breytingar á lögum nr.1/1997 um LSR, en þar er m.a. gert ráð fyrir tilteknu fjármagni í lífeyrisaukasjóð og varúðarsjóð. Yfirlýst markmiðið aðila að samkomulaginu er að samræma lífeyriskerfið í landinu en tryggja um leið áunnin lífeyrisréttindi sem opinberir starfsmenn hafa.

Niðurstaða dr. Oddgeirs er m.a. sú að fjárhæð varúðarsjóðsins sé alltof lág til að sjóðurinn geti tryggt núverandi sjóðfélögum réttindi sín og réttindaávinnslu. Í ljósi niðurstaðna skýrslunnar telur stjórn KVH að verði frumvarpið óbreytt að lögum muni það fela í sér umtalsverða kjaraskerðingu fyrir sjóðfélaga A-deildar LSR og aukna óvissu um verðmæti réttinda þeirra.

Þessi niðurstaða er ákaflega mikilvæg og nauðsynlegt innlegg í umræður um frumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi og verður mögulega afgreitt fyrir áramót.  Hér eru í húfi gríðarlegir hagsmunir opinberra starfsmanna.

Skýrsluna má lesa hér.

Share This