Á aukaaðalfundi BHM, sem haldinn var í gær, 1. nóvember 2017, var samþykkt ný stefna fyrir bandalagið og kemur hún í stað áður gildandi stefnu frá árinu 2013.

Aðdragandinn var sá að á aðalfundi BHM sl. vor náðist ekki að afgreiða tillögur að nýrri stefnu bandalagsins sem lágu fyrir fundinum. Var málinu vísað til formannaráðs BHM sem skipaði fimm manna starfshóp til að vinna málið áfram og skilaði hann af sér tillögu að nýrri stefnu bandalagsins.

Tillaga starfshópsins var samþykkt á aukaaðalfundinum með tveimur orðalagsbreytingum.

Helstu kaflar nýrrar stefnu fjalla um launa- og kjaramál, lífeyrismál, menntamál, málefni stúdenta og LÍN, jafnréttismál og fjölskylduvænan vinnustað, og vinnumarkað framtíðar. (Sjá stefnuna hér: https://www.bhm.is/um-bhm/stefna )

Starfshópurinn skilaði einnig greinargerð með tillögunni að nýrri stefnu, þar sem gerð er grein fyrir forsendum og viðhorfum starfshópsins. Þá leggur starfshópurinn til að BHM skoði hvort ekki sé rétt að taka til viðbótar inn í stefnumörkun bandalagsins þætti sem varða almenn lífskjör og velferð. (Sjá greinargerð starfshópsins hér: https://www.bhm.is/media/adalfundir_bhm_safn/Greinargerd-starfshops-um-stefnu-BHM.pdf )

Share This