Tvisvar til þrisvar á ári hefur BHM haldið námskeið fyrir trúnaðarmenn aðildarfélaga sinna. Námskeiðin hafa verið haldin í húsakynnum BHM í Borgartúni 6 en lengi hefur verið stefnt að því að gera fræðsluna aðgengilegri með því að færa hana yfir á rafrænt form.

Nú hafa kórónuveirufaraldurinn og samkomutakmarkanir flýtt þeirri vinnu og róið er að því öllum árum að útbúa efni og taka upp myndbönd sem munu koma í stað námskeiðs á staðnum. Efnið verður gert aðgengilegt í október á sérstakri síðu á www.bhm.is, þar sem trúnaðarmenn geta skráð sig inn til að fá aðgang að því og munu geta leitað í það eftir tilefni.

Tekið skal fram að þótt námskeið færist yfir á rafrænt form þá er stuðningur og ráðgjöf að sjálfsögðu áfram í boði frá stéttarfélögum innan BHM. Við hvetjum því trúnaðarmenn eindregið til að leita til síns stéttarfélags hvort sem er til að fá persónulegan stuðning eða aðstoð vegna mála sem upp koma á þeirra vinnustað.

Stutt myndbönd og efni til niðurhals

Fræðsla trúnaðarmanna mun samanstanda af styttri myndböndum (10-30 mínútur) um skýrt afmarkaða þætti geta komið upp á vinnustöðum og/eða trúnaðamenn þurfa að gæta að.

Til dæmis:

 • Kosning og vernd trúnaðarmanna
 • Hlutverk, réttindi og skyldur trúnaðarmanna
 • Ráðningarsamningar – tímabundnar og ótímabundnar ráðningar
 • Afnám launaleyndar – upplýsingalög og opinberir starfsmenn
 • Jafnrétti og vinnumarkaður, skyldur atvinnurekenda
 • Kjara- og stofnanasamningar
 • Sjóðir BHM
 • Einelti og áreitni á vinnustað
 • Stytting vinnuvikunnar
 • Vinnutími, helstu hugtök og skipulag vinnutíma
 • Persónuvernd – trúnaðarskyldur og persónuvernd

Einnig verður sett inn efni til niðurhals fyrir trúnaðarmenn, sem ætti að auðvelda þeim að m.a. kynna sitt hlutverk á vinnustað og koma mikilvægum upplýsingum til samstarfsfólks síns.

Það er von okkar hjá BHM að þetta fyrirkomulag auðveldi trúnaðarmönnum að leita upplýsinga um hvaðeina sem upp kemur í þeirra starfi á sem einfaldastan hátt.

Sem fyrr segir verður efnið verður gert aðgengilegt í október, nánari upplýsingar um hvernig má nálgast það verða sendar til trúnaðarmanna þegar þar að kemur.

Share This