Stofnun fyrirtækis og frumkvöðlastarfsemi


Haukur Guðjónsson frumkvöðlaþjálfi býr yfir tveggja áratuga reynslu af frumkvöðlastarfi og hefur sjálfur stofnað sjö fyrirtæki í tveimur heimsálfum og þremur löndum. Nú sérhæfir hann sig í því að veita frumkvöðlum þá leiðsögn og stuðning sem þeir þurfa til að ná árangri í fyrirtækjarekstri.

Bandalag háskólamanna hefur fengið Hauk til þess að koma og vera með námskeið fyrir félagsmenn aðildarfélaga BHM í streymi á streymissíðu BHM þriðjudaginn 15. desember kl. 13:30. Haukur mun flytja fyrirlesturinn og svara spurningum sem áhorfendur geta sent inn í spjallinu á sömu síðu og streymið er á.

Á námskeiðinu verður farið yfir eftirfarandi atriði:

  • Hvað er frumkvöðull?
  • Mismunandi gerðir fyrirtækja
  • Viðskiptahugmyndir
  • Félagaform
  • Stofnun ehf.
  • Góð ráð og algeng mistök

Fyrirlesturinn verður aðgengilegur á síðunni Fræðsla fyrir félagsmenn á vef BHM í tvær vikur í kjölfarið. Á næstunni stefnir BHM einnig á að bjóða upp á námskeið í bókhaldi fyrir frumkvöðla og einyrkja, námskeiðið verður auglýst síðar.

 

Úrræði fyrir atvinnulausa sem langar að stofna fyrirtæki

Bandalag háskólamanna vill vekja athygli atvinnulausra félagsmanna aðildarfélaga BHM á úrræði Vinnumálastofnunar sem nefnist Frumkvæði og hefur verið unnið í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Um úrræðið af vef Vinnumálastofnunar:

,,Megintilgangur verkefnisins er að styðja fólk í atvinnuleit við að búa sér til eigin störf.  Í úrræðinu eiga atvinnuleitendur kost á fræðslu og leiðsögn til að kanna möguleika og tækifæri á að búa til eigið starf. Þátttakendur kanna þörf fyrir væntanlega þjónustu eða vörur sínar á markaði og gera viðskiptaáætlun um viðkomandi verkefni til að meta hvort verkefnið er raunhæft og hvað þurfi til svo að unnt sé að búa til starf.”

Nánari upplýsingar um úrræðið og forsendur fyrir þátttöku í því er að finna hér á vef Vinnumálastofnunar. Athygli er vakin á því að nú stendur yfir endurskoðun á Frumkvæði og því ekki hægt að sækja um það fyrr en í janúar 2021.

Share This