Í grein á vefsíðu BHM í tilefni áramóta segir formaður BHM, Guðlaug Kristjánsdóttir m.a.: “Stjórnvöld og atvinnurekendur tala nú mjög fyrir kjarasamningum sem skuli undirbyggja hagvöxt til framtíðar. Eina trúverðuga atvinnustefnan að slíkum markmiðum er að leggja áherslu á menntun, setja störf sem grundvallast á þekkingu í fyrsta sæti og virkja þannig auðlind sem sannarlega er sjálfbær og eykst frekar ef á hana er gengið, hugvitið. Höfum í huga að þar sem menntað fólk sest að og fær störf við hæfi munu sprotar vaxa og nýjungar fæðast en það eru forsendur fyrir hagvexti.
Til þess að slík stefna gangi upp þarf Ísland að vera ákjósanlegur starfsvettvangur fyrir háskólamenntað fólk. Að mörgu leyti er Ísland spennandi en einum þætti er þó verulega ábótavant og það eru kjörin. Eftir kjaraskerðingu undanfarinna ára er ljóst að þau þarf að bæta svo um munar til þess að tryggja samkeppnishæfni Íslands og forsendur fyrir hagvexti til framtíðar. Þar þarf að leiðrétta þær skerðingar sem orðið hafa og síðan að tryggja eðlilega kaupmáttaraukningu.”