Samninganefnd KVH og ríkisins undirrituðu í gærkvöldi Samkomulag um breytingar og framlengingu á kjarasamningi aðila. Gildistími samningsins er frá 1. mars 2015 til 31. mars 2019. Meginmarkið KVH náðust, en þau voru að samningurinn fæli í sér sömu launahækkanir og Gerðardómur kvað á um vegna aðildarfélaga BHM,  fyrir fyrri hluta samningstímans, auk þess sem samningurinn er afturvirkur frá 1. mars s.l.  Launahækkanir síðari hluta gildistímans eru í samræmi við forsendur og yfirlýst markmið ríkis og flestra aðila vinnumarkaðarins, um sameiginlega launastefnu til ársloka 2018 og þá framtíðarsýn um meginstoðir nýs íslensks samningalíkans, sem stefnt er að.

KVH mun senda félagsmönnum sínum hjá ríkinu samninginn til kynningar á morgun, fimmtudag, auk nánari kynningar á honum. Stefnt er að því að rafræn atkvæðagreiðsla um hann hefjist síðdegis á fimmtudag og ljúki á hádegi n.k. mánudag þ. 16. nóv.   Verði samningurinn samþykktur munu launagreiðslur 1. desember taka mið af þessum nýja samningi.

Share This