KVH og önnur stéttarfélög BHM sem aðild eiga að sameiginlegum kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins gerðu samkomulag s.l. haust við SA um breytingu á kjarasamningi. Hún fólst í sambærilegri hækkun iðgjalda í lífeyrissjóði og um var samið hjá öðrum launþegum á almennum vinnumarkaði.

Framlag launagreiðanda hækkar frá 1. júlí 2017 og verður 10% í stað 8% áður. Þá hækkar framlagið aftur þ. 1. júlí 2018 um 1,5% og verður 11.5%, eins og hjá starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga.

Þessa viðbót geta sjóðfélagar ráðstafað í séreignarsparnað, svokallaða tilgreinda séreign, í stað samtryggingar, í samræmi við lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Sjóðfélagar sjálfir þurfa að ákveða hvort viðbótariðgjaldið renni í tilgreinda séreign og þá hjá hvaða lífeyrissjóði, ella rennur það í samtryggingarhluta sjóðanna.

Fjármálaeftirlitið hefur nýverið vakið athygli lífeyrissjóða á þeirri skyldu þeirra að upplýsa sjóðfélaga um rétt þeirra til að ráðstafa framangreindum séreignarhluta iðgjalds, og beint þeim tilmælum til lífeyrissjóða að yfirfara heimasíður sínar og leiðrétta ónákvæmar eða villandi upplýsingar um framangreint.

Share This