Guðfinnur Þór Newman hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga frá 1. sept. n.k. Hallur Páll Jónsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri KVH frá ársbyrjun 2013, lætur nú af störfum vegna aldurs en hann mun vinna að ýmsum sérverkefnum fyrir félagið til næstu áramóta.

Guðfinnur er viðskiptafræðingur að mennt frá Háskóla Íslands, með áherslu á fjármál og endurskoðun. Þá hefur hann einnig lokið prófi í verðbréfamiðlun frá Háskólanum í Reykjavík. Síðastliðið ár hefur hann starfað sjálfstætt sem ráðgjafi en þar áður starfaði hann í tæp 2 ár hjá Samorku. Hann starfaði í tæp 10 ár hjá Reykjavíkurborg, á skrifstofu borgarhagfræðings og sem deildarstjóri tölfræði og greiningar. Einnig starfaði Guðfinnur hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga í 5 ár á lögfræði- og kjarasviði sambandsins.

Guðfinnur hefur mjög mikla reynslu í kjarasamningsgerð og vinnumarkaðsmálum en hann hefur komið að gerð kjarasamninga frá síðustu aldamótum. Einnig hefur hann mikla þekkingu á launatölfræði sem og líkanasmíði. Síðast liðin tvö ár hefur Guðfinnur verið stjórnarmaður í  KVH og Bandalagi háskólamanna.

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga er þriðja stærsta stéttarfélagið innan Bandalags háskólamanna. Félagsmenn KVH starfa á öllum vinnumarkaðinum og í flestum atvinnugreinum.

Share This