LSR, Brú og atvinnuleysisbætur

Fólk sem nýtur jafnrar réttindaávinnslu í A-deildum LSR og Brúar, með framlögum úr lífeyrisaukasjóðum þeirra, á rétt á að halda jafnri réttindaávinnslu þótt það missi vinnu og fari á atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt lögum ber öllum launþegum í landinu að lágmarki að greiða 4% launa sinna í lífeyrissjóð og almennt greiða vinnuveitendur 11,5% mótframlag. Einstaklingur sem missir vinnu og fær atvinnuleysisbætur skal einnig að lágmarki greiða 4% af þeim í lífeyrissjóð og greiðir Atvinnuleysistryggingasjóður þá 11,5% mótframlag.

Árið 2016 gerðu bandalög opinberra starfsmanna samkomulag við ríki og sveitarfélög um breytingar á lífeyriskerfinu. Ein helsta breytingin fólst í því að í stað svokallaðrar jafnrar réttindaávinnslu var tekin upp svokölluð aldurstengd réttindaávinnsla. Með sérstöku fyrirkomulagi var tryggt að réttindi þáverandi sjóðfélaga í A-deildum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Brúar lífeyrissjóðs héldust jafn verðmæt fyrir og eftir breytingarnar. Til að þessir sjóðfélagar gætu áfram notið jafnrar réttindaávinnslu voru myndaðir svokallaðir lífeyrisaukasjóðir innan A-deildanna.

Hver eiga rétt á lífeyrisauka?

Lífeyrisaukasjóðir A-deildanna tryggja eingöngu réttindi þeirra sem voru sjóðfélagar 1. júní 2017. Lífeyrisaukasjóður LSR tryggir réttindi sjóðfélaga sem starfa hjá stofnunum eða fyrirtækjum sem að meirihluta eru fjármögnuð með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða framlögum. Lífeyrisaukasjóður Brúar tryggir réttindi starfsmannna sveitarfélaga eða stofnana þeirra.

Sjóðfélagar A-deilda LSR eða Brúar sem starfa hjá öðrum aðilum en nefndir eru hér að framan eiga ekki rétt á lífeyrisauka. Ef þessir sjóðfélagar vilja halda jafnri réttindaávinnslu þurfa launagreiðendur þeirra að greiða sérstakt iðgjald fyrir þá til viðbótar við fasta mótframlagið. Þetta sérstaka iðgjald samsvarar lífeyrisauka. Frá 1. janúar 2019 hefur það verið 5,91% af launum hjá LSR en 6,0% hjá Brú en fasta mótframlagið er almennt 11,5%. Samtals greiða launagreiðendur því 17,41% eða 17,5% af launum vegna þessara starfsmanna til LSR eða Brúar.

Mismunandi staða sjóðfélaga við atvinnumissi

Ef sjóðfélagi sem hefur átt rétt á lífeyrisauka missir vinnu og sækir um atvinnuleysisbætur getur hann áfram notið jafnrar réttindaávinnslu hjá LSR eða Brú ef hann/hún greiðir 4% af bótunum til síns sjóðs. Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir þá fasta mótframlagið (11,5%) fyrir sjóðfélagann og lífeyrisaukasjóðirnir greiða áfram lífeyrisauka vegna hans/hennar.

Ef ríkisstarfsmaður sem ekki hefur átt rétt á lífeyrisauka missir vinnu og sækir um atvinnuleysisbætur þarf hann/hún að greiða bæði fasta iðgjaldið (4%) og hið sérstaka iðgjald (5,91%) af atvinnuleysisbótum sínum til LSR til að halda jafnri réttindaávinnslu. Samkvæmt samþykktum LSR þurfa sjóðfélagar að gera skil á hugsanlegum mismun á mótframlagi sem greitt er af Atvinnuleysistryggingasjóði og iðgjaldi sem launagreiðanda ber að skila til A-deildar á hverjum tíma. Geri sjóðfélagi ekki skil á þessum mismun innan fjögurra vikna frá gjalddaga iðgjalda fyrirgerir hann/hún rétti sínum til að greiða af atvinnuleysisbótum sínum til A-deildar.

Share This