Að mati BHM hefur nýlegur dómur Félagsdóms í máli Lyfjafræðingafélags Íslands (LFÍ) gegn ríkinu fullt fordæmisgildi gagnvart kjarasamningum aðildarfélaga bandalagsins við ríkið og Reykjavíkurborg. Hins vegar er fordæmisgildið ekki jafn augljóst gagnvart kjarasamningum félaganna við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Málið sem um ræðir varðaði tiltekin ákvæði um orlof í kjarasamningum LFÍ og ríkisins. Í eldri kjarasamningi aðila var ákvæði þess efnis að ef orlof (eða hluti orlofs) væri tekinn eftir að sumarorlofstímabili lyki skyldi það lengjast um fjórðung. Ákvæðinu var breytt við gerð gildandi kjarasamnings aðila sem tók gildi 1. maí 2020. Þar er nú sett það skilyrði fyrir fjórðungs lengingu orlofs að yfirmaður hafi farið skriflega fram á að orlof væri tekið utan sumarorlofstímabils. Þetta þýðir að taki starfsmaður orlof utan sumarorlofstímabils án þess að skrifleg beiðni yfirmanns komi til lengist orlofið ekki.

LFÍ stefndi ríkinu vegna félagsmanna sinna sem fengu ekki fjórðungs lengingu orlofs sem þeir höfðu áunnið sér fyrir 1. maí 2020 en nýttu eftir þann tíma án þess að skrifleg beiðni yfirmanns kæmi til.

Dómur Félagsdóms í málinu var kveðinn upp 25. mars sl. Í stuttu máli leit Félagsdómur svo á að réttur til lengra orlofs hafi sjálfkrafa orðið til þegar starfsmennirnir fullnýttu ekki orlofsrétt sinn á sumarorlofstímabili sem er samkvæmt orlofslögum á hverju ári frá 2. maí til 15. september. Umrætt ákvæði í gildandi kjarasamningi aðila um skriflegt samþykki geti ekki skert þann rétt sem starfsmennirnir höfðu áunnið sér á grundvelli ákvæða í eldri kjarasamningi. Meginreglan í vinnurétti sé sú að breytingar á launum og starfskjörum séu ekki afturvirkar nema um það sé sérstaklega samið. Ekki hafi verið sýnt fram á að aðilar hafi samið um að ákvæðið um skriflega beiðni yfirmanns skyldi gilda afturvirkt.

Í dómsorði segir orðrétt:

Viðurkennt er með dómi Félagsdóms að félagsmenn stefnanda, sem starfa hjá ríkinu, eigi rétt til fjórðungs lengingar orlofs vegna orlofs sem tekið er utan sumarorlofstímabils, að því leyti sem þeir höfðu áunnið sér slíkan rétt fyrir gildistöku nýs kjarasamnings milli aðila 1. maí 2020, jafnvel þótt formskilyrði í nýjum kjarasamningi aðila um skriflega beiðni yfirmanns hafi ekki verið uppfyllt.

Fordæmisgildi dómsins gagnvart öðrum kjarasamningum

Í eldri kjarasamningum aðildarfélaga BHM við ríkið og Reykjavíkurborg voru sömu eða sambærileg ákvæði um fjórðungs lengingu orlofs og áður voru í samningi LFÍ við ríkið. Í gildandi samningum BHM-félaganna við ríkið og Reykjavíkurborg hefur þessum ákvæðum verið breytt á sama hátt og í nýjum samningi LFÍ við ríkið og tóku allar breytingarnar gildi á sama tíma, þ.e. 1. maí 2020. Að mati BHM er því augljóst að niðurstaða Félagsdóms hefur fullt fordæmisgildi gagnvart kjarasamningum aðildarfélaga BHM við bæði ríkið og Reykjavíkurborg. Hins vegar telur BHM að fordæmisgildið sé ekki jafn augljóst gagnvart kjarasamningum félaganna við Samband íslenskra sveitarfélaga enda ákvæðin ekki alveg sambærileg í því tilviki.

Kjara- og mannauðssýsla ríkisins (KMR) hefur gefið til kynna að dómurinn muni hafa fordæmisgildi gagnvart öllum kjarasamningum stéttarfélaga við ríkið sem innihalda sambærileg ákvæði og samningar LFÍ.

Share This