Á fjölmennum fundi félagsmanna Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga, er starfa hjá ríkinu, og sem haldinn var í hádeginu í dag, mánudaginn 14. september, á Hilton Reykjavík Nordica, var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða:
“Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga krefst þess að ríkið gangi nú þegar til samninga við KVH, en kjarasamningur hefur nú verið laus í rúmlega hálft ár.
Fyrir liggja bæði ítarlegar tillögur KVH og niðurstaða Gerðardóms, sem kvað upp úrskurð sinn 14. ágúst s.l. um laun og forsendur launabreytinga mikils fjölda háskólamanna sem starfar hjá ríkinu.
Afturvirkar launabreytingar hafa þegar tekið gildi hjá þeim háskólamönnum sem heyra undir Gerðardóm og vinna í mörgum tilfellum sambærileg störf og félagsmenn KVH hjá ríkinu.
Hingað til hafa hugmyndir samninganefndar ríkisins um launahækkanir verið með öllu óviðunandi fyrir þá 500 félagsmenn KVH sem sinna mikilvægum störfum á ríkisstofnunum og í engu sambærilegar við niðurstöðu Gerðardóms eða þær forsendur sem löggjafinn setti honum.
KVH skorar á fjármálaráðherra að beita sér fyrir lausn mála svo ekki þurfi að koma til ófriðar að nýju á opinberum vinnumarkaði. Vísar KVH í því sambandi til orða fjármálaráðherra í viðtali við RUV frá 15. ágúst s.l. þar sem hann segist vona að niðurstaða Gerðardóms „verði grundvöllur að meiri friði á vinnumarkaði en verið hefur“.