Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga leggur megináherslu á aukinn kaupmátt í komandi kjarasamningum.  Kaupmáttaraukning er háð mörgum þáttum.  Sumir þessara þátta eru samningsatriði í kjarasamningum, en aðrir háðir ákvörðunum ríkisvalds, sveitarfélaga og ytri aðstæðna annarra.  Mikilvægt er að samhliða því sem samið verður um hækkun kaupliða kjarasamninga verði ráðstafanir í ríkisfjármálum og efnahagsmálum almennt með þeim hætti að ekki leiði til kaupmáttarrýrnunar. Hér er mikilvægast að búa við efnahagslegan stöðuleika, til að stuðla að lágum vöxtum og aukinni fjárfestingu.

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga bendir á að laun háskólamanna hjá ríki og sveitarfélögum hafa hækkað mun minna á síðustu árum en laun á almennum vinnumarkaði og vísitala kaupmáttar launafólks hefur enn ekki náð því stigi sem var á árinu 2006.  Þá hafa launalækkanir sem Reykjavíkurborg, nokkur sveitarfélög og ýmsar ríkisstofnanir gripu til tímabundið á árinu 2009, ekki verið teknar til baka.  Þessu verður að snúa við og meta verðgildi háskólamenntunar að verðleikum.

Ljóst er að sum svið atvinnulífsins hafa getað hækkað laun umfram verðlagsþróun og án þess að velta launahækkunum út í verðlag. Sama á við um laun opinberra starfsmanna, en launahækkanir þeirra eiga heldur ekki að hafa áhrif á verðlagshækkanir. Því verður að andmæla þeim fullyrðingum sem heyrst hafa að undanförnu frá viðsemjendum að launahækkanir leiði einungis til aukinnar verðbólgu og minni kaupmáttar. Svo er auðvitað ekki.

Mótmæla verður áformum Reykjavíkurborgar að hækka gjaldskrár margvíslegrar þjónustu langt umfram verðlagsþróun, en ef þau ná fram að ganga munu þau hafa áhrif ekki aðeins á ráðstöfunartekjur heldur á vísitölu neysluverðs og þar með hækka verðtryggðar skuldir heimilanna.

Mikil óvissa ríkir enn um stöðu efnahagsmála, gengisþróun og atvinnustig.  Þess vegna er mikilvægt að ríkisstjórnin skýri hvað hún ætlast fyrir þannig að hægt verði að meta forsendur nýrra kjarasamninga.

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga vinnur nú að því að móta sértækar kröfugerðir vegna komandi kjarasamninga og mun kynna þær viðsemjendum við upphaf samningaviðræðna.

Share This