Vegna kórónuveirufaraldursins hefur stjórn Orlofssjóðsins ákveðið að á árinu 2021 verði engar eignir teknar á leigu erlendis og þá verða aðeins leigðar fimm eignir innanlands. Auknu fé verður ráðstafað í niðurgreiðslur handa sjóðfélögum á hótelgistingu, flugfargjöldum, veiðikortum, útilegukortum og ýmsum gjafabréfum. Eftirspurn eftir slíkum niðurgreiðslum, s.s. hótelmiðum og flugávísunum, hefur jafnan verið mun meiri en eftirspurn eftir orlofshúsunum.

Sjóðurinn á samtals um 50 orlofshús og íbúðir um land allt sem leigðar eru til um 14.500 sjóðfélaga. Að auki hefur sjóðurinn tekið á leigu nokkurn fjölda orlofshúsa og íbúða á sumrin, bæði innanlands og erlendis. Þrátt fyrir þessi umsvif hefur aðeins hluti sjóðfélaga átt þess kost að fá úthlutað orlofshúsi eða íbúð á hverju sumri. Eftirspurn hefur ávallt verið langt umfram framboð.

Útfærslan kynnt í byrjun næsta árs
Með þessari ákvörðun vill stjórnin stuðla betur að því að fjármunir og þjónusta sjóðsins nýtist sem flestum sjóðfélögum. Frekari útfærsla verður kynnt í byrjun næsta árs.

Share This