KVH varð við beiðni samninganefndar ríkisins (SNR) á síðasta fundi aðila þ. 30. sept, um stutt hlé á viðræðum, þar sem SNR hafði ekki nýjar tillögur fram að færa til lausnar kjaradeilunnar, en vildi á hinn bóginn fá svigrúm til freista þess að ná breiðri samstöðu um lausn kjaramála við fleiri aðila, m.a. með viðræðum „aðila vinnumarkaðarins“ í svonefndum SALEK hópi.  Sex önnur háskólafélög sem eru í sömu stöðu og KVH og með lausa samninga, gerðu slík hið sama.  KVH hefur jafnframt fundað með fulltrúum þessara stéttarfélaga og lagt á ráðin um samvinnu og samstarf í þeirri kjaradeilu sem nú stendur yfir.  Öll hafa félögin sett fram svipaðar kröfur (ígildi gerðardómshækkana) en fengið sömu svör frá SNR, þ.e. tilboð frá því í júní.  Á það hefur KVH að sjálfsögðu ekki  fallist.

Samninganefnd KVH hefur rökstutt kröfugerð sína og drög að nýjum kjarasamningi vel og ítarlega og gert viðsemjanda það ljóst að félagsmenn muni ekki fallast á lakari samning um launaþróun en þá sem þegar liggur fyrir með niðurstöðu Gerðardóms.  Hið sama á við um gildistíma samnings og afturvirkni.   Engin haldbær rök standa til annars.

Félögin fóru s.l. föstudag fram á sameiginlegan fund með SNR, en svar hefur enn ekki borist við þeirri beiðni.  Fjármálaráðherra hefur heldur ekki orðið við beiðni KVH um fund vegna stöðu mála.  Ljóst er að mál eru snúin fyrir viðsemjandann, samningar eru einnig lausir við BSRB félög og yfirvofandi verkföll síðar í þessari viku ef ekki semst.  Þá hafa ASÍ og SA jafnframt haft sig í frammi vegna niðurstöðu Gerðardóms og hótað uppsögn samninga á almennum vinnumarkaði í febrúar.

Þetta allt virðist ríkið vilja leysa í einu lagi og reyna að ná allsherjar samkomulagi um kjarasamninga og frið á vinnumarkaði út árið 2018.   Það er í sjálfu sér ágætis markmið, en ekkert hefur þokast ennþá.   Þó verður að ætla að ríkisstjórninni sé það kappsmál að leysa þessar deilur og í víðara samhengi að tryggja megi vaxandi kaupmátt á næstu árum.

Vonast er til að úrslit ráðist í þessari viku. KVH hefur gert SNR skýra grein fyrir því að ekki verður við þetta ástand búið lengur.  Samningar verða að nást, ellegar er félagið knúið til að grípa til þeirra aðgerða sem það telur að best dugi til að knýja fram niðurstöðu.

Share This