Aðalfundur Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) verður haldinn miðvikudaginn 3 . júní 2020, kl. 12:00 – 13:30, í fundarsölum BHM að Borgartúni 6, 4. hæð.

 

Dagskrá:

Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári

Reikningar félagsins

Tillögur félagsstjórnar

Kosning í embætti stjórnar og önnur trúnaðarstörf

Lagabreytingar

Ákvörðun félagsgjalda

Fjárhagsáætlun og fjárfestingastefna félagsins

Önnur mál

 

Kosningar: Á þessum aðalfundi skal skv. lögum félagsins kjósa ritara og meðstjórnanda. Að auki skal kjósa þrjá varamenn í stjórn og tvo skoðunarmenn reikninga. Eftirtaldir hafa gefið kost á sér með lögmætum fyrirvara til þessara embætta:

Til ritara: Sæmundur Hermannsson. Sjálfkjörinn.

Til meðstjórnanda: Ásta Leonhardsdóttir. Sjálfkjörin.

Til varastjórnar: Björn Bjarnason, Irina S. Ogurtsova og Tjörvi Guðjónsson. Sjálfkjörin.

Til skoðunarmanna reikninga: Halla S. Sigurðardóttir og Jóngeir Hlinason. Sjálfkjörin

 

Lagabreytingar: Stjórn KVH leggur fram eftirtaldar tillögur til lagabreytinga:

  1. Að í fyrstu málsgrein 10.gr laga um aðalfund, þar sem fjallað er um stjórnarkjör og lengd kjörtímabils, þar standi:

Stjórn félagsins er skipuð fimm mönnum og þremur til vara.  Stjórn er kjörin á aðalfundi félagsins.  Kjörtímabil formanns skal vera fjögur ár og kjörtímabil aðalmanna skal vera tvö ár í senn. Kjörtímabil varamanna í stjórn skal vera eitt ár í senn. Leitast skal við að hlutfall karla eða kvenna samanlagt í stjórn og varastjórn félagsins nái 40%.“

 

Að önnur málsgrein 10.gr. laga um stjórnarkjör verði þannig:

 

„Kjöri aðalmanna í stjórn félagsins skal haga þannig að aldrei sé skipt um alla stjórnarmenn í einu. Þannig skal kjósa til embættis gjaldkera og eins meðstjórnanda á sama aðalfundi og svo til embættis ritara og eins meðstjórnanda á þeim næsta. “

 

 

 

  1. Tillaga Helgu Sigurðardóttur um breytingar á 10. grein laga um aðalfund. Tíunda grein breytist og verði í heild sinni þannig:

 

„Stjórn félagsins er skipuð fimm mönnum og þremur til vara.  Stjórn er kjörin á aðalfundi félagsins.  Kjörtímabil aðalmanna skal vera tvö ár í senn. Kjörtímabil varamanna í stjórn skal vera eitt ár í senn.

 

Stjórn KVH skal skipa þannig  að hlutfall karla og kvenna  endurspegli hlutfallið 60% þ.e. þrír stjórnarmenn og 40% hlutfall kvenna/karla  þ.e. tveir stjórnarmenn. Kynjaskiptingar hlutfall ræðst af því hvort kynið fær flest atkvæði við kosningu í embætti og tekið skal mið af því hvernig embætti í stjórn eru skipuð sem ekki eru í framboði á aðalfundi. Sömu kynjahlutföll skulu gilda um varastjórn. Ef framboð karla og kvenna gefur ekki kost á tilgreindum kynjahlutföllum þá skal ráða flest atkvæði við kosningu til embætta stjórnar KVH óháð kyni.

 

Kjöri aðalmanna í stjórn félagsins skal haga þannig að aldrei sé skipt um alla stjórnarmenn í einu. Þannig skal kjósa til embættis formanns, gjaldkera og eins meðstjórnanda á sama aðalfundi og svo til embættis ritara og eins meðstjórnanda á þeim næsta. Kjósa skal um hvert embætti fyrir sig.

 

Kosning skal fara fram þannig að stjórn KVH endurspegli  60% og 40% kynjaskiptingu  karla og kvenna og skal framkvæmd fléttukosning í embætti til stjórnar. Sá frambjóðandi sem flest atkvæði fær skipar embætti í stjórn KVH og næsta sæti í embætti skipar sá sem flest atkvæði fékk af hinu kyninu svo framarlega sem framboð beggja kynja til stjórnar styður slíka framkvæmd. Sé fyrir kynjahalli  í stjórn þá fær það kyn sem hallar á og flest atkvæði fær kosningu í það embætti sem frambjóðandi gaf kost á sér til.

 

Ritari gegnir formannsstarfi ef með þarf.

Formaður kveður varamenn til stjórnarfunda ef þurfa þykir.

Stjórn félagsins skipar fulltrúa á aðalfund Bandalags háskólamanna.  Formaður situr í formannaráði BHM í samræmi við gildandi lög þess.  Stjórn tilnefnir fulltrúa félagsins í nefndir og ráð BHM og til annarra trúnaðarstarfa eftir atvikum. Hámarkstími sem stjórnarmaður getur setið í stjórn getur ekki orðið lengri en 12 ár og formaður stjórnar skal ekki sitja lengur en 15 ár í stjórn félagsins.“

Share This