Oddgeir Ágúst Ottesen hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH). Hann er með doktorsgráðu í hagfræði frá University of California þar sem sérsvið hans var fjármálahagfræði og stærðfræðigreining.

Undanfarin átta ár hefur hann rekið ráðgjafafyrirtækið Integra og veitt þar ráðgjöf varðandi líkanagerð og áhættu- og lausafjárstýringu. Einnig veitti hann þar ráðgjöf um lífeyrismál fyrir stofnanir, fyrirtæki og hagsmunasamtök. Hann mat meðal annars virði bakábyrgðar ríkisins á skuldbindingum A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) þegar lögum um sjóðinn var breytt árið 2016.

Áður starfaði Oddgeir sem aðalhagfræðingur hjá IFS greiningu, sem hagfræðingur á fjármálastöðugleikasviði Seðlabanka Íslands og sem hagfræðingur og síðar forstöðumaður áhættugreiningardeildar lánasviðs Fjármálaeftirlitsins.

Oddgeir hefur einnig verið lektor við viðskiptadeild Háskóla Íslands og kennt þar áfanga í fjármálum og hagfræði.

 

Share This