HVER GÆTIR ÞINNA HAGSMUNA?

HVER GÆTIR ÞINNA HAGSMUNA?

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) er stéttarfélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Félagið sér um að gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði.  Það vinnur að bættum kjörum félagsmanna, gætir réttinda þeirra og er óháð starfsvettvangi, vinnuveitanda eða ráðningarformi.

Alls eru greiðandi félagsmenn nú tæplega 2.000. Um 55% starfar á almennum vinnumarkaði en 45% hjá hinu opinbera.

KVH hefur það að markmiði að félagsmenn þess njóti bestu mögulegrar þjónustu og hagsmunagæslu á hverjum tíma. KVH er aðili að Bandalagi háskólamanna.

Aðsetur KVH og BHM er að Borgartúni 6, Reykjavík.

Á skrifstofu KVH er svarað í síma og veitt ráðgjöf er hér segir:

Mánudaga – fimmtudaga 13:00-16:00.

Föstudaga 9:00-12:00.

Fyrir almennar heimsóknir er hægt að bóka ráðgjöf og fjarfundi í síma 595-5140 eða: kvh@bhm.is

Efst á baugi


Kjaraviðræður

Samningafundi KVH og ríkisins sem frestað var, verður haldið áfram í þessari viku.  Þau stéttarfélög háskólamanna sem enn eiga í viðræðum við ríkið hafa jafnframt fundað sameiginlega sín á milli síðustu daga.

Í síðustu viku gerði ríkið nýjan kjarasamning við tvö af stærstu samböndum stéttarfélaga innan ASÍ, þ.e. Starfsgreinasambandið (með 19 aðildarfélög og um 50 þús félagsmenn)  og Flóabandalagið svokallaða (Efling í Reykjavík, Hlíf í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur).  Að sögn formanns samninganefndar ríkisins varð kostnaðarauki þessara samninga um 28%, en þeir gilda til 31.mars 2019.  Mat viðsemjenda var hins vegar ögn hærra eða tæplega 30%.   

Verkföll SFR og sjúkraliða standa nú yfir og viðræður ríkisins við þau félög hafa átt sér stað að undanförnu undir stjórn ríkissáttasemjara.  Náist fljótlega niðurstaða í þeim viðræðum ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að ríkið geti samið við KVH og þau sex önnur háskólafélög sem enn eiga ósamið.

 

Af samningaviðræðum við ríkið

KVH varð við beiðni samninganefndar ríkisins (SNR) á síðasta fundi aðila þ. 30. sept, um stutt hlé á viðræðum, þar sem SNR hafði ekki nýjar tillögur fram að færa til lausnar kjaradeilunnar, en vildi á hinn bóginn fá svigrúm til freista þess að ná breiðri samstöðu um lausn kjaramála við fleiri aðila, m.a. með viðræðum „aðila vinnumarkaðarins“ í svonefndum SALEK hópi.  Sex önnur háskólafélög sem eru í sömu stöðu og KVH og með lausa samninga, gerðu slík hið sama.  KVH hefur jafnframt fundað með fulltrúum þessara stéttarfélaga og lagt á ráðin um samvinnu og samstarf í þeirri kjaradeilu sem nú stendur yfir.  Öll hafa félögin sett fram svipaðar kröfur (ígildi gerðardómshækkana) en fengið sömu svör frá SNR, þ.e. tilboð frá því í júní.  Á það hefur KVH að sjálfsögðu ekki  fallist.

Samninganefnd KVH hefur rökstutt kröfugerð sína og drög að nýjum kjarasamningi vel og ítarlega og gert viðsemjanda það ljóst að félagsmenn muni ekki fallast á lakari samning um launaþróun en þá sem þegar liggur fyrir með niðurstöðu Gerðardóms.  Hið sama á við um gildistíma samnings og afturvirkni.   Engin haldbær rök standa til annars.

Félögin fóru s.l. föstudag fram á sameiginlegan fund með SNR, en svar hefur enn ekki borist við þeirri beiðni.  Fjármálaráðherra hefur heldur ekki orðið við beiðni KVH um fund vegna stöðu mála.  Ljóst er að mál eru snúin fyrir viðsemjandann, samningar eru einnig lausir við BSRB félög og yfirvofandi verkföll síðar í þessari viku ef ekki semst.  Þá hafa ASÍ og SA jafnframt haft sig í frammi vegna niðurstöðu Gerðardóms og hótað uppsögn samninga á almennum vinnumarkaði í febrúar.

Þetta allt virðist ríkið vilja leysa í einu lagi og reyna að ná allsherjar samkomulagi um kjarasamninga og frið á vinnumarkaði út árið 2018.   Það er í sjálfu sér ágætis markmið, en ekkert hefur þokast ennþá.   Þó verður að ætla að ríkisstjórninni sé það kappsmál að leysa þessar deilur og í víðara samhengi að tryggja megi vaxandi kaupmátt á næstu árum.

Vonast er til að úrslit ráðist í þessari viku. KVH hefur gert SNR skýra grein fyrir því að ekki verður við þetta ástand búið lengur.  Samningar verða að nást, ellegar er félagið knúið til að grípa til þeirra aðgerða sem það telur að best dugi til að knýja fram niðurstöðu.

BHM fræðslan

Skráning í BHM-fræðsluna hefst í dag, fimmtudaginn 8. október.

Dagskráin verður fjölbreytt að vanda. Segja má að boðið verði upp á „verkfærakistu“ þar sem er að finna ýmis tól.

Námskeiðin eru af ýmsum toga og fjalla m.a. um teymisvinnu, að skapa umbótamenningu með straumlínustjórnun (LEAN) sem hefur það að markmiði að bæta rekstur fyrirtækja. Hvernig leysa eigi vandamál, stýra verkefnum og haga stefnumótun með A3 sem er eitt af verkfærum Lean. Aðferðarfræði Beyond budgeting sem er framsækin leið til þess að nýta betur tækifæri í rekstri, minnka sóun og kostnað í stjórnunar- og fjármálaferlum fyrirtækja og stofnanna. Hvaða mælikvarða er best að nota í ýmsum rekstrareiningum varðandi mannauð. Við lærum að Tísta í Twitter 101 og hvað virkar í samfélagsmiðlun og hvernig á að nota þá miðla rétt. Trúnaðarmannafræðslan verður á sínum stað og svo endum við önnina á námskeiði um núvitund sem er einföld og áhrifarík leið til að takast á við krefjandi áskoranir daglegs lífs.

Viðræður halda áfram

Ákveðið var í lok samningafundar KVH og ríkisins í morgun, 30. sept, að halda viðræðum áfram næstu daga. Mál hafa nokkuð skýrst og tillögur KVH áfram til umræðu. Var því fundi frestað en ekki slitið eins og venja er, og gera menn sér vonir um að hægt verði að ná samkomulagi fljótlega, sem viðunandi megi teljast. Þá var yfirlýst af hálfu ríkisins að þau loforð um gildistíma /afturvirkni sem SNR hefur áður sett fram, haldist óbreytt.

KVH hefur því ásamt fimm öðrum stéttarfélögum háskólamanna ákveðið að halda viðræðum við SNR áfram næstu daga, en stéttarfélög prófessora, háskólakennara, verkfræðinga, tæknifræðinga og tölvunarfræðinga eru öll í svipaðri stöðu.  Á sama tíma eiga sér stað mikilvægar viðræður helstu aðila vinnumarkaðarins og ríkisins, með aðkomu ríkissáttasemjara, til að tryggja stöðuleika á vinnumarkaði næstu misserin og koma í veg fyrir hrinu verkfalla og uppsagna kjarasamninga. Vonir standa til að þær viðræður skili árangri.

Forsíða

Félagsaðild

Í boði er meðal annars:

  • Fæðingarstyrkir og sjúkradagpeningar
  • Starfs- og endurmenntunarstyrkir
  • Sumarbústaðir og orlofshúsnæði, innanlands og erlendis

Námsmannaaðild

Námsmenn í viðskiptafræði eða hagfræði á háskólastigi, sem lokið hafa a.m.k. 60 einingum (ECTS) geta sótt um námsmannaaðild að KVH (NKVH). Slík aðild felur m.a. í sér:

  • Aðgang að upplýsingum og leiðbeiningum félagsins er snerta störf og kjör á vinnumarkaði
  • Aðstoð við gerð ráðningarsamninga
  • Aðgang að námskeiðum/málstofum KVH á ári hverju. Efni námskeiðanna eru fjölbreytt og höfða til námsmanna
  • Gjöf frá KVH þegar að námi lýkur