HVER GÆTIR ÞINNA HAGSMUNA?

HVER GÆTIR ÞINNA HAGSMUNA?

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) er stéttarfélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Félagið sér um að gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði.  Það vinnur að bættum kjörum félagsmanna, gætir réttinda þeirra og er óháð starfsvettvangi, vinnuveitanda eða ráðningarformi.

Alls eru greiðandi félagsmenn nú tæplega 2.000. Um 55% starfar á almennum vinnumarkaði en 45% hjá hinu opinbera.

KVH hefur það að markmiði að félagsmenn þess njóti bestu mögulegrar þjónustu og hagsmunagæslu á hverjum tíma. KVH er aðili að Bandalagi háskólamanna.

Aðsetur KVH og BHM er að Borgartúni 6, Reykjavík.

Á skrifstofu KVH er svarað í síma og veitt ráðgjöf er hér segir:

Mánudaga – fimmtudaga 13:00-16:00.

Föstudaga 9:00-12:00.

Fyrir almennar heimsóknir er hægt að bóka ráðgjöf og fjarfundi í síma 595-5140 eða: kvh@bhm.is

Efst á baugi


Fundur á Akureyri um lífeyrismál

Á morgun, föstudaginn 30. september, efnir BHM til opins upplýsingafundar á Akureyri um stöðu lífeyrismála opinberra starfsmanna fyrir félagsmenn aðildarfélaga bandalagsins norðan heiða. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, kynnir samkomulag um breytt fyrirkomulag lífeyrismála opinberra starfsmanna og svarar spurningum fundarmanna. Fundurinn verður haldinn kl. 14 – 15:30 í hátíðasal Háskólans á Akureyri (N101) að Sólborg við Norðurslóð.

 

 

Kynningarfundur um stöðu lífeyrismála

Á morgun, þriðjudaginn 27. september, efnir BHM til opins upplýsingafundar um stöðu lífeyrismála fyrir félagsmenn aðildarfélaga bandalagsins. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, og Páll Halldórsson, fulltrúi BHM í viðræðunefnd um lífeyrismál, kynna Samkomulag um breytt fyrirkomulag lífeyrismála opinberra starfsmanna og svara spurningum fundarmanna.

 Fundurinn verður haldinn kl. 16:30–18:00 í Rúgbrauðsgerðinni, Borgartúni 6, Rvk. (4. hæð).  Félagsmenn KVH, einkum þeir sem eiga sjóðsaðild að LSR og LSS (Brú), eru hvattir til að nýta sér fundarboðið.

 

KVH greiddi atkvæði gegn nýju samkomulagi um lífeyrismál

Síðast liðinn mánudag, 19. september, undirrituðu BHM, BSRB og KÍ samkomulag við ríki og sveitarfélög um nýja skipan lífeyrismála þeirra félagsmanna sem eiga aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Brú Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga (áður LSS). Samkomulagið felur m.a. í sér lengingu lífeyristökualdurs úr 65 árum í 67 ár, aldurstengingu réttinda og afnám bakábyrgðar, gegn bótum fyrir þær skerðingar, vegna þeirra sem nú eiga réttindi í sjóðunum.

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga hefur fylgst með þessum viðræðum og ítrekað gert athugasemdir við vinnubrögð, drög að samkomulagi og drög að frumvarpi sem er í smíðum. Við atkvæðagreiðslu um samkomulagið á formannafundi BHM greiddi KVH atkvæði gegn samþykkt þessa samkomulags.  Í bókun formanns KVH á fundinum segir m.a.:

KVH hefur áður lýst yfir stuðningi við þau meginmarkmið að koma á samræmdu og sjálfbæru lífeyriskerfi til framtíðar fyrir alla landsmenn, með samræmingu réttinda, fullum bótum fyrir skerðingar og um leið jöfnun launa háskólamanna á almennum og opinberum vinnumarkaði.

KVH telur hins vegar að fyrirliggjandi drög að samkomulagi uppfylli ekki þau skilyrði sem setja verður. Málið er fjarri því að vera nægilega vel undirbúið og unnið, fjölmörgum spurningum um mikilvæga hagsmuni er ósvarað og óvissa því töluverð.   Þá verða það að teljast ámælisverð vinnubrögð að reyna að knýja fram niðurstöðu í málinu í miklum flýti, þegar það hefur ekki verið rætt til hlítar eða kynnt almennum félagsmönnum.   Í ljósi þessa telur formaður og stjórn KVH það vera óábyrgt að samþykkja drögin og teljum okkur í raun ekki hafa umboð okkar umbjóðenda til þess.  Hagsmunirnir sem hér eru undir eru ekki minni en þeir sem tekist er á um í kjarasamningum og því væri eðlilegt að leita álits félagsmanna aðildarfélaga BHM áður en gengið væri frá samkomulagi sem varðar svo mikla hagsmuni.„

Sérstaklega gagnrýndi KVH orðalag 7. gr. samkomulagsins um samkeppnishæfni og jöfnun launa milli markaða, en það er mjög almennt orðað og óljóst. Sú grein samkomulagsins varðar bæði hagsmuni núverandi sjóðfélaga og framtíðar sjóðfélaga. Sem kunnugt er hafa meðallaun háskólamanna hjá hinu opinbera gjarnan verið lægri en á almennum markaði (í sambærilegum störfum) og það réttlætt hingað til með betri lífeyriskjörum opinberra starfsmanna.

KVH lagði því áherslu á að vinnu yrði haldið áfram við útfærslu á drögum að samkomulagi þar sem spurningum um forsendur, útreikninga og óvissu yrði svarað svo hægt væri að taka upplýsta afstöðu til málsins eftir kynningu til félagsmanna. Því miður var það ekki gert.

Félagsmenn geta kynnt sér texta samkomulagsins á vef fjármálaráðuneytisins: https://www.fjarmalaraduneyti.is/media/frettatengt2016/Samkomulag-um-nytt-samraemt-lifeyriskerfi.pdf

og einnig pistil formanns BHM um málið: http://www.bhm.is/frettir/mikilvaegum-afanga-nad-en-morg-verkefni-bida

Krafa í heimabanka ekki frá KVH

Nokkrar fyrirspurnir hafa borist að undanförnu til KVH vegna kröfu FVH í heimabanka félagsmanna. Mikilvægt er að benda á að umrædd krafa er EKKI á vegum KVH heldur Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH), sem er sjálfstætt fagfélag og KVH alveg óviðkomandi.

Félagsmenn KVH greiða sitt stéttarfélagsgjald mánaðarlega eins og sjá má á frádrætti á launaseðlum, en félagsgjaldið er 0,6% af heildarlaunum og með því lægsta sem tíðkast.

Forsíða

Félagsaðild

Í boði er meðal annars:

  • Fæðingarstyrkir og sjúkradagpeningar
  • Starfs- og endurmenntunarstyrkir
  • Sumarbústaðir og orlofshúsnæði, innanlands og erlendis

Námsmannaaðild

Námsmenn í viðskiptafræði eða hagfræði á háskólastigi, sem lokið hafa a.m.k. 60 einingum (ECTS) geta sótt um námsmannaaðild að KVH (NKVH). Slík aðild felur m.a. í sér:

  • Aðgang að upplýsingum og leiðbeiningum félagsins er snerta störf og kjör á vinnumarkaði
  • Aðstoð við gerð ráðningarsamninga
  • Aðgang að námskeiðum/málstofum KVH á ári hverju. Efni námskeiðanna eru fjölbreytt og höfða til námsmanna
  • Gjöf frá KVH þegar að námi lýkur