HVER GÆTIR ÞINNA HAGSMUNA?

HVER GÆTIR ÞINNA HAGSMUNA?

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) er stéttarfélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Félagið sér um að gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði.  Það vinnur að bættum kjörum félagsmanna, gætir réttinda þeirra og er óháð starfsvettvangi, vinnuveitanda eða ráðningarformi.

Alls eru greiðandi félagsmenn nú rúmlega 1.500. Um helmingur þeirra starfar á almennum vinnumarkaði en tæplega helmingur hjá hinu opinbera.

KVH hefur það að markmiði að félagsmenn þess njóti bestu mögulegrar þjónustu og hagsmunagæslu á hverjum tíma. KVH er aðili að Bandalagi háskólamanna.

Aðsetur KVH og BHM er að Borgartúni 6, Reykjavík.

Efst á baugi


Úthlutun úr vísindasjóð KVH

Gert er ráð fyrir að úthlutað sé úr Vísindasjóð KVH um miðjan febrúar 2020.

 

Vísindasjóður KVH

Vísindasjóður KVH, líkt og vísindasjóðir annarra aðildarfélaga BHM, var stofnaður með kjarasamningunum 1989. Í sjóðinn leggur launagreiðandi fram 1,5% af dagvinnulaunum launþega.

Hverjir eiga rétt á úthlutun ?

Allir fullgildir félagar, sem greitt hefur verið fyrir í sjóðinn á hverju almanaksári, og sem taka laun eftir kjarasamningum KVH við Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg, eiga rétt á styrk. Einnig þeir félagsmenn á almennum vinnumarkaði sem samið hafa við vinnuveitanda sinn um greiðslur í sjóðinn.

Félagsmenn sem starfa hjá ríki eiga ekki lengur rétt á úthlutun úr vísindasjóði. Í kjarasamningum KVH og ríkisins 2008 var framlag vinnuveitanda í vísindasjóð aflagt með þeim hætti að launatafla var hækkuð um 2,0%, vegna breytinga á vísindasjóðsframlagi.

Á almenna vinnumarkaðinum er aðild að vísindasjóði valkvæð eins og áður segir og geta félagsmenn samið í ráðningarsamningi við vinnuveitanda um greiðslur í sjóðinn.

Styrkfjárhæð og úthlutunarmánuður

Styrkfjárhæð er miðuð við innborgun í sjóðinn á almanaksári, nú síðast tímabilið 1. janúar 2019 – 31. desember 2019. Úthlutað er úr sjóðnum árlega, í febrúar.

Ekki þarf að sækja sérstaklega um úthlutun úr vísindasjóðnum.

Skattaleg meðferð:

Styrkurinn er forskráður á skattframtal styrkþega og er talinn fram til skatts eins og aðrar tekjur. Gera skal sundurliðaða grein fyrir þeim kostnaði sem framteljandi telur fram á móti styrknum, á sérstöku undirblaði á vefframtali.  Nánari upplýsingar er að finna á vef ríkisskattstjóra, www.rsk.is

Ganga þarf lengra í því að styrkja háskólanema

Umsögn BHM um frumvarp til laga um Menntasjóð námsmanna

BHM fagnar áformum stjórnvalda um að taka upp blandað kerfi lána og styrkja í stað núverandi námslánakerfis. Engu að síður telur bandalagið að ganga eigi lengra í því að styrkja námsmenn en lagt er til í frumvarpi til laga um Menntasjóð námsmanna. Þá telur BHM nauðsynlegt að 

sett verði ákveðið þak á vexti námslána í nýju kerfi. Enn fremur lýsir BHM furðu á því að ekki sé í frumvarpinu komið í veg fyrir að námsmenn framtíðarinnar þurfi að greiða af námslánum eftir að starfsævinni lýkur.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um Menntasjóð námsmanna sem mun, verði frumvarpið að lögum, leysa af hólmi Lánasjóð íslenskra námsmanna. Í umsögn BHM um frumvarpið er því

fagnað að ætlunin sé að taka upp blandað kerfi námsstyrkja og námslána. Styrkur til námsmanna mun samkvæmt frumvarpinu einkum felast í því að veittur verður 30% afsláttur af höfuðstól námsláns ef námsmaður lýkur námi innan ákveðinna tímamarka. Í umsögninni er bent á að í Noregi sé sambærilegur afsláttur 40%: „Að mati bandalagsins ættu íslensk stjórnvöld að hafa metnað til að haga fyrirkomulagi námsstyrkja þannig að það standist samanburð við það sem best gerist meðal nágrannaþjóða.“

Stuðningur við barnafólk verði alfarið í formi styrks

Einnig bendir BHM á að í Noregi fái námsmenn afslátt af höfuðstól námslána í lok hverrar annar ef kröfur um námsframvindu eru uppfylltar. Þetta þýði að námsmaður njóti ávinnings af eðlilegri námsframvindu jafnóðum og ekki einungis þegar námi lýkur. BHM telur slíkt fyrirkomulag heppilegra en það sem frumvarpið kveður á um: „BHM hvetur löggjafann til að skoða þetta atriði sérstaklega um leið og mat er lagt á það hvort stuðningskerfi við námsmenn sé nægilega vel fjármagnað hérlendis.“

Í frumvarpinu er kveðið á um að stuðningur við námsmenn með börn verði blanda af styrkjum og lánum. BHM telur að stuðningur vegna barna námsmanna eigi alfarið að vera í formi styrks: „Engu að síður fagnar BHM því að styrkja eigi barnafólk í námi og meðlagsgreiðendur. Þessi breyting gerir allt námsstuðningskerfið fjölskylduvænna og nútímalegra.“

Námsmenn beri ekki kostnaðinn af mögulegum efnahagsáföllum

Samkvæmt frumvarpinu verða vextir á námslánum breytilegir. Í umsögn BHM er vakin athygli á því að íslenskt samfélag hafi til þessa einkennst af miklum sveiflum, með tilheyrandi verðlags- og vaxtabreytingum. Nauðsynlegt sé að löggjafinn taki af allan vafa um að greiðendur námslána verði ekki látnir bera kostnaðinn af mögulegum efnahagsáföllum í framtíðinni. BHM mælist því eindregið til þess að sett verði vaxtaþak á námslán, eins og í núgildandi kerfi: „Þannig yrði hafið yfir vafa að ríkissjóður myndi eftir sem áður taka á sig kostnað vegna mögulegra efnahagsáfalla í framtíðinni og slíkum kostnaði yrði ekki velt yfir á námsmenn.“

Ekki tryggt að allir nái að greiða upp lán sín fyrir 65 ára aldur

Eitt markmiða frumvarpsins er að enginn greiði af námsláni eftir 65 ár aldur. BHM fagnar þessu markmiði enda hefur bandalagið lengi barist fyrir því að eftistöðvar námslána falli niður við starfslok. Samkvæmt frumvarpinu munu lántakar eiga þess kost, áður en þeir ná 35 ára aldri, að velja hvort afborganir lána verði tekjutengdar eða ekki. BHM er eindregið fylgjandi því að lántakar hafi þennan valkost í nýju kerfi. Hins vegar er í umsögninni bent á að þetta muni að óbreyttu leiða til þess að fyrrnefnt markmið frumvarpsins náist ekki. Þótt flestir lántakar muni ná að greiða upp lán sín fyrir 65 ára aldur muni hluti þeirra eftir sem áður ekki ná því, þ.e. fólk sem tekur há lán og velur að tekjutengja afborganir. BHM telur raunar (og styðst þar við eigin útreikninga) að stór hópur lántaka muni velja að tekjutengja sín námslán: „BHM harmar að við heildarendurskoðun á námslánakerfinu sé ekki stigið það nauðsynlega skref að koma í veg fyrir að námsmenn framtíðarinnar greiði af námslánum eftir að starfsævinni lýkur. Ef viðráðanlegar tekjutengdar afborganir námslána nægja ekki til að ljúka greiðslum námslána fyrir starfslok er ljóst að stuðningur við námsmenn er ekki nægur og úr því verður aðeins bætt með frekari fjárframlögum.“

Annað markmið frumvarpsins er að jafna þann óbeina styrk sem felst í núverandi kerfi milli námsmanna. Bent hefur verið á að þessi óbeini styrkur sé á bilinu 1% og upp í 85% af fjárhæð láns. Í umsögn BHM er vakin athygli á því að vegna tekjutekingarinnar muni eftir sem áður, verði frumvarpið að lögum, fjöldi lántaka fá meiri stuðning en aðrir í formi niðurfellingar námslána við andlát.

Fjallað er um ýmis fleiri atriði í frumvarpinu í umsögn BHM.

Er hægt að halda jafnri ávinnslu lífeyrisréttinda við atvinnumissi?

LSR, Brú og atvinnuleysisbætur

Fólk sem nýtur jafnrar réttindaávinnslu í A-deildum LSR og Brúar, með framlögum úr lífeyrisaukasjóðum þeirra, á rétt á að halda jafnri réttindaávinnslu þótt það missi vinnu og fari á atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt lögum ber öllum launþegum í landinu að lágmarki að greiða 4% launa sinna í lífeyrissjóð og almennt greiða vinnuveitendur 11,5% mótframlag. Einstaklingur sem missir vinnu og fær atvinnuleysisbætur skal einnig að lágmarki greiða 4% af þeim í lífeyrissjóð og greiðir Atvinnuleysistryggingasjóður þá 11,5% mótframlag.

Árið 2016 gerðu bandalög opinberra starfsmanna samkomulag við ríki og sveitarfélög um breytingar á lífeyriskerfinu. Ein helsta breytingin fólst í því að í stað svokallaðrar jafnrar réttindaávinnslu var tekin upp svokölluð aldurstengd réttindaávinnsla. Með sérstöku fyrirkomulagi var tryggt að réttindi þáverandi sjóðfélaga í A-deildum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Brúar lífeyrissjóðs héldust jafn verðmæt fyrir og eftir breytingarnar. Til að þessir sjóðfélagar gætu áfram notið jafnrar réttindaávinnslu voru myndaðir svokallaðir lífeyrisaukasjóðir innan A-deildanna.

Hver eiga rétt á lífeyrisauka?

Lífeyrisaukasjóðir A-deildanna tryggja eingöngu réttindi þeirra sem voru sjóðfélagar 1. júní 2017. Lífeyrisaukasjóður LSR tryggir réttindi sjóðfélaga sem starfa hjá stofnunum eða fyrirtækjum sem að meirihluta eru fjármögnuð með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða framlögum. Lífeyrisaukasjóður Brúar tryggir réttindi starfsmannna sveitarfélaga eða stofnana þeirra.

Sjóðfélagar A-deilda LSR eða Brúar sem starfa hjá öðrum aðilum en nefndir eru hér að framan eiga ekki rétt á lífeyrisauka. Ef þessir sjóðfélagar vilja halda jafnri réttindaávinnslu þurfa launagreiðendur þeirra að greiða sérstakt iðgjald fyrir þá til viðbótar við fasta mótframlagið. Þetta sérstaka iðgjald samsvarar lífeyrisauka. Frá 1. janúar 2019 hefur það verið 5,91% af launum hjá LSR en 6,0% hjá Brú en fasta mótframlagið er almennt 11,5%. Samtals greiða launagreiðendur því 17,41% eða 17,5% af launum vegna þessara starfsmanna til LSR eða Brúar.

Mismunandi staða sjóðfélaga við atvinnumissi

Ef sjóðfélagi sem hefur átt rétt á lífeyrisauka missir vinnu og sækir um atvinnuleysisbætur getur hann áfram notið jafnrar réttindaávinnslu hjá LSR eða Brú ef hann/hún greiðir 4% af bótunum til síns sjóðs. Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir þá fasta mótframlagið (11,5%) fyrir sjóðfélagann og lífeyrisaukasjóðirnir greiða áfram lífeyrisauka vegna hans/hennar.

Ef ríkisstarfsmaður sem ekki hefur átt rétt á lífeyrisauka missir vinnu og sækir um atvinnuleysisbætur þarf hann/hún að greiða bæði fasta iðgjaldið (4%) og hið sérstaka iðgjald (5,91%) af atvinnuleysisbótum sínum til LSR til að halda jafnri réttindaávinnslu. Samkvæmt samþykktum LSR þurfa sjóðfélagar að gera skil á hugsanlegum mismun á mótframlagi sem greitt er af Atvinnuleysistryggingasjóði og iðgjaldi sem launagreiðanda ber að skila til A-deildar á hverjum tíma. Geri sjóðfélagi ekki skil á þessum mismun innan fjögurra vikna frá gjalddaga iðgjalda fyrirgerir hann/hún rétti sínum til að greiða af atvinnuleysisbótum sínum til A-deildar.

Síða 10 af 73« Fyrsta...89101112...203040...Síðasta »

Félagsaðild

Í boði er meðal annars:

  • Fæðingarstyrkir og sjúkradagpeningar
  • Starfs- og endurmenntunarstyrkir
  • Sumarbústaðir og orlofshúsnæði, innanlands og erlendis
  • Styrkir til gleraugnakaupa og heilsuræktarstyrkur m.m.
Sækja um

Námsmannaaðild

Námsmenn í viðskiptafræði eða hagfræði á háskólastigi, sem lokið hafa a.m.k. 60 einingum (ECTS) geta sótt um námsmannaaðild að KVH (NKVH). Slík aðild felur m.a. í sér:

  • Aðgang að upplýsingum og leiðbeiningum félagsins er snerta störf og kjör á vinnumarkaði
  • Aðstoð við gerð ráðningarsamninga
  • Aðgang að námskeiðum/málstofum KVH á ári hverju. Efni námskeiðanna eru fjölbreytt og höfða til námsmanna
  • Gjöf frá KVH þegar að námi lýkur
Sækja um